Nova klúbburinn hf.: Þuríður Björg lætur af störfum hjá Nova
Þuríður Björg Guðnadóttir, framkvæmdastjóri markaðssóknar hjá Nova, hefur óskað eftir því að láta af störfum hjá félaginu. Hún hefur starfað hjá Nova frá stofnun og setið í framkvæmdastjórn frá árinu 2017. Þuríður lætur af störfum um næstu mánaðarmót en mun áfram veita félaginu ráðgjöf og styðja við yfirstandandi verkefni.
Þuríður er með B.Sc. í Rekstrarverkfræði og er stjórnendamarkþjálfi frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hóf störf 18 ára gömul í þjónustuveri Nova, við stofnun félagsins, og hefur sinnt margvíslegum verkefnum, m.a. sem sölu- og þjónustustjóri, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs, framkvæmdastjóri upplifunar og síðast sem framkvæmdastjóri markaðssóknar. Þuríður sat í stjórn Lyfju á árunum 2018-2024 og situr nú í stjórn Vís trygginga.
„Ég er ótrúlega stolt af árangrinum sem við höfum náð saman og því sem við höfum byggt upp. Við höfum alltaf haft óbilandi trú á því að hægt sé að gera hlutina öðruvísi, skemmtilegri og betur. Það hefur verið lykillinn að okkar árangri og ég er mjög spennt fyrir því sem framtíðin ber í skauti sér – bæði fyrir mig og fyrir Nova. Það hefur verið algjörlega einstakt að fá að vera í hópi Nova dansaranna, að tilheyra stærsta skemmtistað í heimi allan þennan tíma, ástríðufullum hópi sem brennur fyrir árangri og gefst aldrei upp. Núna er réttur tími fyrir mig að flytja að heiman og stíga inn í nýjar áskoranir. Ég held áfram að hvetja Nova af hliðarlínunni og fylgjast með félaginu vaxa áfram, dafna og vinna stóra sigra í góðum höndum” segir Þuríður Björg.
„Það er alltaf eftirsjá að frábæru fólki en Þuríður skilur eftir sig mikið og mikilvægt starf sem við búum að. Hún hefur verið lykilmanneskja í því að móta, hlúa að og auka viðskiptaánægju meðal viðskiptavina Nova með frábærum árangri. Nú þegar við hefjum nýjan kafla í sögu Nova og stígum næstu skref inn í framtíðina byggjum við á þeim góða grunni sem hefur gert Nova að því magnaða fyrirtæki sem það er í dag. Við óskum Þuríði alls hins besta og hlökkum til að fylgjast með henni takast á við næstu verkefni.“, segir Sylvía Kristín Ólafsdóttir, forstjóri Nova.
