Tilkynning frá Eimskip
Yfirlýsing vegna sáttaviðræðna
Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar ætluð brot Eimskipafélags Íslands hf. (og tengdra félaga) og Samskipa hf. (og tengdra félaga) á 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 53. gr. EES-samningsins, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993. Megin rannsóknartímabilið eru árin 2008 - 2013. Einnig hafa ætluð brot á 19. gr. samkeppnislaga verið til rannsóknar.
Í 17. gr. f. samkeppnislaga segir að hafi fyrirtæki gerst brotlegt við ákvæði laganna sé Samkeppniseftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt. Í sátt samkvæmt samkeppnislögum getur falist að fyrirtæki viðurkenni brot, fallist á að greiða sekt og grípi til aðgerða til að efla samkeppni.
Eimskip hefur snúið sér til Samkeppniseftirlitsins og óskað eftir formlegum viðræðum um hvort unnt sé með vísan til 17. gr. f. samkeppnislaga að ljúka rannsókn eftirlitsins á brotum fyrirtækisins með sátt.
Samkeppniseftirlitið fellst á að hefja viðræður við Eimskip um hvort forsendur séu til þess að ljúka rannsókn á brotum fyrirtækisins með sátt.
Eimskip er ljóst að í sáttaviðræðum er leitað leiða til að bregðast með fullnægjandi hætti við þeim aðgerðum Eimskips sem lýst er í andmælaskjölum Samkeppniseftirlitsins frá 6. júní 2018 og 13. desember 2019. Náist niðurstaða í sáttaviðræðunum mun það fela í sér endanlegar lyktir gagnvart Eimskip á þeirri rannsókn og málsmeðferð sem lýst er í andmælaskjölum Samkeppniseftirlitsins.
FREKARI UPPLÝSINGAR
Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs, sími: 825 3399, netfang: .