VÍS: Breytingar á viðskiptavakt
Vátryggingafélag Íslands hf. hefur í dag endurnýjað samning við Kviku banka hf. um viðskiptavakt á hlutabréfum útgefnum af félaginu í Kauphöll Íslands NASDAQ OMX Iceland.
Samningurinn kveður á um að Kvika skuli dag hvern leggja fram kaup- og sölutilboð í hlutabréf útgefin af VÍS í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands. Fjárhæð kaup- og sölutilboða, skal vera að lágmarki kr. 10.000.000 að markaðsvirði, á gengi sem Kvika ákveður í hvert skipti. Kviku er heimilt en ekki skylt að bjóða til kaups og/eða sölu hærri fjárhæðir að markaðsvirði.
Tilboð skulu endurnýjuð eins fljótt og unnt er, þó ávallt innan 10 mínútna eftir að þeim er tekið að fullu eða þau felld niður af hálfu Kviku. Hámarksmunur kaup- og sölutilboða er 1,5%. Eigi Kvika viðskipti með bréf félagsins fyrir kr. 50.000.000 að markaðsvirði eða meira í sjálfvirkri pörun (e. „automatch“) innan dags, sem fer um veltubók Kviku (markaðsvakt bankans), falla niður skyldur um hámarksmun kaup- og sölutilboða innan þess dags.
Samningurinn er ótímabundinn og kemur til framkvæmda frá og með 1. febrúar 2021. Samningurinn er uppsegjanlegur af beggja hálfu með 14 daga fyrirvara.