Eimskip: Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2025
HELSTU ATRIÐI Í AFKOMU FYRSTA ÁRSFJÓRÐUNGS
Árstíðabundin sveifla í rekstri félagsins einkennir afkomu fyrsta ársfjórðungs sem þó batnar á milli ára.
- Gott magn var í siglingarkerfinu á fjórðungnum sem óx um 6,6% en meðalflutningsverð voru óbreytt frá fyrra ári þrátt fyrir hækkun á verðum í Trans-Atlantic.
- Góð afkoma af alþjóðlegri flutningsmiðlun á fjórðungnum, þrátt fyrir minnkun á magni, sem byggðist á hagstæðri samsetningu verkefna.
- Í annarri flutningatengdri þjónustu lækkaði afkoman á milli ára, meðal annars vegna minni nýtingar í frystigeymslum félagsins, lægri kvóta og lægri birgðastöðu viðskiptavina okkar.
Tekjur námu 200,3 milljónum evra og hækkuðu um 6,5 milljónir evra eða 3,4% samanborið við fyrsta ársfjórðung 2024.
Rekstrarkostnaður nam 185,0 milljónum evra og hækkaði um 5,4 milljónir evra eða 3,0% frá fyrra ári.
- Launakostnaður jókst um 3,2 milljónir evra milli ára sem jafngildir 8,6% hækkun sem kemur að mestu til vegna kjarasamningsbundinna launahækkana. Starfsmannafjöldi hélst óbreyttur á milli ára.
EBITDA fjórðungsins nam 15,3 milljónum evra samanborið við 14,2 milljónir evra á sama tímabili 2024, sem er aukning um 7,7%. EBITDA hlutfall var 7,7% samanborið við 7,3% á sama fjórðungi fyrra árs.
Afkoma eftir skatta var neikvæð um 0,8 milljónir evra á fjórðungnum samanborið við jákvæða afkomu að fjárhæð 0,5 milljónir evra á sama tímabili í fyrra og skýrist breytingin helst af auknum afskriftum og lækkun afkomu hlutdeildarfélaga.
Sjóðstreymi frá rekstri á fjórðunginum var sterkt og nam um 16 milljónum evra en til samanburðar var það 2,7 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi 2024.
VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI
„Fyrstu mánuðir ársins fóru nokkuð vel af stað en það var hóflegur vöxtur í EBITDA afkomu á fyrsta ársfjórðungi og nam hún 15,3m evra sem er aukning um 1,1m evra frá fyrra ári. Sögulega hefur fyrsti ársfjórðungur verið sá tími árs sem minnst umsvif eru í starfsemi félagsins og í ár bættust við kostnaðarsamar truflanir í rekstri vegna óvenju slæms veðurs á Norður-Atlantshafi en þó var 6,6% magnaukning í siglingarkerfinu. Hávær umræða hefur verið um nýja tollastefnu Bandaríkjanna og áhrif þeirra á fyrirtæki og hagkerfi heimsins. Þrátt fyrir óvissu sem þetta hefur skapað eru áhrifin á Eimskip enn sem komið er óveruleg.
Bætta afkomu af siglingarkerfinu má einna helst rekja til aukins magns og betri nýtingar ásamt því að kostnaður á hverja flutta einingu lækkaði lítillega. Hins vegar hafði breytt samsetning flutningsmagns áhrif á meðalflutningsverð, sem voru óbreytt á milli ára, þrátt fyrir hærri meðalverð í Trans-Atlantic flutningum. Þá erum við ánægð að sjá að breytingar sem voru gerðar á gámasiglingakerfinu á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs hafa skilað sér í færri sigldum mílum og minni olíunotkun og vegur það upp á móti almennum kostnaðarverðhækkunum og verðbólguþrýstingi.
Afkoma alþjóðlegu flutningsmiðlunarinnar var með ágætum og hækkaði EBITDA í 2,5m evra úr 2,0m evra á síðasta ári þrátt fyrir 12% lækkun í magni. Minnkun í magni skýrist helst af þeim sviptingum sem hafa átt sér stað um þessar mundir á alþjóðlegum mörkuðum vegna yfirvofandi tolla til og frá Bandaríkjunum. Þá hefur einnig borið á skorti á gámum í Asíu hjá sumum af stóru alþjóðlegu skipafélögunum og truflunum í hafnarstarfsemi þeirra víðsvegar um heiminn sem hefur áhrif á þá þjónustu sem við veitum.
Í annarri flutningstengdri starfsemi voru umsvif nokkuð góð í landflutningum og hafnarstarfsemi á sama tíma og nýting í vöruhúsastarfsemi minnkaði á fjórðunginum vegna minni birgðahalds viðskiptavina á sjávarafurðum, sem litaði afkomu þessarar starfsemi.
Eins og önnur fyrirtæki í alþjóðlegum rekstri höfum við ekki farið varhluta af þeim áskorunum sem fylgja reglugerðarkröfum og vaxandi óvissu í alþjóðaviðskiptum. Við teljum varhugavert að eftir langt tímabil hárra vaxta og mikillar verðbólgu hér á landi sé nú verið að horfa til aukinnar skattbyrði á fyrirtæki og almenning.
Heilt yfir erum við nokkuð bjartsýn fyrir komandi mánuðum enda sjáum við venjubundnar árstíðarsveiflur í rekstrinum okkar þar sem annar og þriðji fjórðungur eru að jafnaði þeir umsvifamestu í starfseminni. Þá er sérstaða Eimskips á Norður-Atlantshafinu almennt þolnari gagnvart efnahagslegum sveiflum en hún byggir á heimamarkaði sem hefur á að skipa mjög inn- og útflutningsdrifnum hagkerfum sem treysta á sjóflutninga að megninu til og að sama skapi er áhersla félagsins í alþjóðlegu flutningsmiðlununni að þjónusta viðskiptavini í flutningum á ferskum og frosnum matvælum.“
KYNNINGARFUNDUR 14. MAÍ 2025
Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn miðvikudaginn 14. maí kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Fundurinn verður einnig rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips . Þar munu Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri og Rósa Guðmundsdóttir fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.
FREKARI UPPLÝSINGAR
Rósa Guðmundsdóttir, fjármálastjóri, sími: 844 4776, netfang:
Guðbjörg Birna Björnsdóttir, forstöðumaður fjárstýringar og fjárfestatengsla, sími 844 4752, netfang:
TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA
Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.
Viðhengi
