Tilkynning frá Eimskip
Eimskip barst í dag tilkynning frá Alcoa Fjarðaáli sf. þar sem upplýst er að Alcoa áformi að fella niður skaðabótamál gegn Eimskip næsta þriðjudag 27. maí, við fyrirtöku í héraðsdómi Reykjavíkur.
Í málinu var krafist skaðabóta að fjárhæð 3.086.000.000 króna, auk dráttarvaxta frá 24. maí 2024, óskipt úr hendi Eimskipafélags Íslands hf., Eimskip Ísland ehf., Samskipa hf. og Samskipa Holding B.V. vegna meints tjóns stefnanda af sakarefni ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 33/2023, sem laut að árunum 2008-2013.
Fjárkrafa Alcoa byggði alfarið á minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Analytica ehf., sem innihélt svonefnt frummat, frá 21. febrúar 2024. Ráðgjafafyrirtækið Hagrannsóknir sf., sem fræðimennirnir dr. Birgir Þór Runólfsson dósent og deildarforseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands og dr. Ragnar Árnason prófessor emeritus standa að, yfirfór umrætt minnisblað fyrir Eimskip og vann skýrslu um efni þess.
Niðurstaða Hagrannsókna sf. var afgerandi um að vankantar í minnisblaði Analytica ehf. væru svo alvarlegir og ályktanir svo rangar að minnisblaðið væri í heild ónothæft sem mat á meintu tjóni. Fjallað var um skýrslu Hagrannsókna í uppgjörskynningu Eimskips fyrir annan ársfjórðung 2024 en hana má einnig finna .
Það var og er mat félagsins að ekkert tilefni hafi verið til málsóknar stefnanda, enda eru skilyrði skaðabótaskyldu ekki uppfyllt. Þá er ætlað fjártjón stefnanda og þar með fjárkrafan engum haldbærum gögnum studd.
Nánari upplýsingar veitir Harpa Hödd Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í síma 825-7379 eða Guðbjörg Birna Björnsdóttir, forstöðumaður Fjárfestatengsla í síma 844-4752 eða á .
