Skagi: Stjórnir Skaga og Íslandsbanka samþykkja að hefja samrunaviðræður
Stjórnir Skaga hf. og Íslandsbanka hf. hafa samþykkt að hefja formlegar samrunaviðræður og hefur skilmálaskjal þess efnis verið undirritað af hálfu beggja aðila.
Í viðræðum um sameiningu félaganna er lagt til grundvallar að hluthafar Skaga eignist 323.859.440 nýja hluti í Íslandsbanka sem jafngildir um 15% hlut í sameinuðu félagi. Það endurspeglar viðskiptagengið 21,18 krónur á hvern hlut í Skaga og 124,00 krónur á hlut fyrir Íslandsbanka.
Sameinað félag verði leiðandi á fjármálamarkaði
Félögin sjá mikið virði í sameiningu þeirra með því að innleiða samþætt viðskiptamódel sem miðar að styrkleikum beggja félaga. Sameinað félag verður leiðandi á banka- og tryggingamarkaði auk þess sem samruninn býr til öflugri fjárfestingarbanka- og eignastýringarstarfsemi með fjölmörg tækifæri til frekari sóknar. Félögin geta sameinuð sótt enn sterkar fram á öllum sviðum fjármálaþjónustu og eru vel í stakk búin til að leiða frekari þróun á fjármálamarkaði. Skýr tækifæri eru til staðar til að auka þjónustu við viðskiptavini, auka arðsemi með hagkvæmari fjárhagsskipan og auknum umsvifum í eigna- og sjóðastýringu sem myndast við samrunann.
Þá er ávinningur talinn felast í samlegð af samrunanum, en bein árleg samlegð er metin á bilinu 1,8 – 2,4 milljarðar króna.
Að mati stjórnar Skaga er um að ræða hagfelld viðskipti fyrir hluthafa Skaga, sem eru í takt við stefnu Skaga um að vera þátttakandi í þróun á fjármálamarkaði. Það er mat stjórnar að sameiningin muni renna frekari stoðum undir aukna arðsemi sameinaðs félags. Þá mun sameinað félag búa yfir verulegu umfram eigin fé sem skapar frekari tækifæri til vaxtar.
Gert er ráð fyrir að nánari viðræður um skilmála og útfærslu samrunans muni fara fram á næstu vikum. Nánar verður upplýst um framvindu viðræðna eftir því sem ástæða er til og í samræmi við lögbundna upplýsingaskyldu félaganna.
Nánari upplýsingar veitir Haraldur I. Þórðarson, forstjóri Skaga, í netfanginu
Vinsamlegast athugið að tilkynning þessi er tilkynning á innherjaupplýsingum í samræmi við 7. gr. reglugerðar (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik („MAR“), sem var veitt lagagildi hérlendis með lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021.
