VÍS: Nýr kafli í sögu félagsins
Stjórn Vátryggingafélags Íslands hf. (VÍS) hefur markað stefnu sem felur í sér ákveðin kaflaskil í rekstri félagsins. Markmið stjórnarinnar er að gera VÍS að enn vænlegri fjárfestingakosti á markaði með skýrri sýn á vöxt, þróun og fjármagnsskipan. Liður í því er að gera félagið söludrifnara, efla tengsl við viðskiptavini og vera í fararbroddi við að innleiða nýjungar í tryggingastarfsemi. Samhliða stefnir VÍS á að verða virkur þátttakandi í þróun fjármálastarfsemi á Íslandi með áherslu á arðsaman vöxt, eignastýringu og ýmis önnur tækifæri sem hafa opnast á fjármálamarkaði.
Á þessum kaflaskilum lætur Helgi Bjarnason af störfum sem forstjóri, en hann hefur leitt starfsemi VÍS frá 1. júlí 2017. Stjórn VÍS mun ráða nýjan forstjóra til félagsins á næstunni og tilkynna um það sérstaklega.
Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu, mun taka tímabundið við starfi forstjóra VÍS. Guðný hefur verið í leiðandi hlutverki í þróun félagsins á undanförnum árum og hefur starfað hjá félaginu síðan 2016.
Samkeppnishæfni efld
Það er mat stjórnar VÍS að nú sé rétti tíminn til að gera breytingar á hlutverki forstjóra og hefja nýjan kafla á þeim góða grunni sem lagður hefur verið. VÍS þarf að vera í sífelldu breytingaferli til þess að geta verið skrefinu á undan í þróun trygginga- og fjármálamarkaða á Íslandi. Forstjóraskipti nú eru hluti af því ferli. Markmiðið er að VÍS verði í fararbroddi íslenskra tryggingafélaga, veiti framúrskarandi þjónustu og sé í nánum tengslum við viðskiptavini sína.
Eignastýringafélagið SIV, sem er í meirihlutaeigu VÍS, mun hefja starfsemi á næstunni og bjóða fjárfestum og viðskiptavinum VÍS spennandi tækifæri. Er það hluti af stefnumörkun stjórnar og fyrsta skrefið í að víkka út starfsemi félagsins á fjármálamarkaði.
Vöxtur á góðum grunni
VÍS hefur undir forystu Helga Bjarnasonar gengið í gegnum miklar breytingar undanfarin ár. Helstu innviðir félagsins hafa verið uppfærðir eða endurnýjaðir, markvisst hefur verið fjárfest í upplýsingatækni og stafrænni þróun og býr félagið nú að öflugum kerfum sem auka hagkvæmni og öryggi í rekstri. Stjórnunarlegir innviðir félagsins hafa enn fremur verið styrktir verulega. Stjórnkerfi félagsins er til fyrirmyndar og áhersla lögð á fagmennsku á öllum sviðum.
VÍS hefur á að skipa öflugum og metnaðarfullum hópi góðs starfsfólks sem vinnur af heilindum fyrir félagið og viðskiptavini þess. VÍS er því í góðri stöðu til að sækja fram á nýjum forsendum með nýjum áherslum.
Stjórn VÍS þakkar Helga fyrir mikilvægt framlag hans til uppbyggingar félagsins og gott samstarf.
Frekari upplýsingar veitir:
Stefán H. Stefánsson, stjórnarformaður VÍS með netfanginu og í síma 820-6303.
