Mögulegir tollar á innflutning lyfja til Bandaríkjanna hefðu hverfandi áhrif á tekjur Alvotech á árinu
Alvotech (NASDAQ: ALVO) áætlar að mögulegir tollar á innflutning lyfja til Bandaríkjanna hefðu hverfandi áhrif á tekjur félagsins af sölu lyfja á árinu. Vöruinnflutningur frá Íslandi fellur undir lægsta toll til Bandaríkjanna, sem er 10%, en lyf bera enn engan toll. Sambærilegur 10% tollur á lyf myndi aðeins hækka innflutningsverð á lyfjum frá Alvotech til Bandaríkjanna um sem nemur innan við 1% af áætluðum heildartekjum Alvotech af lyfjaútflutningi á árinu. Samkvæmt gildandi samningum við samstarfsaðila, sem sjá um sölu á hverju markaðssvæði, bera þeir allan flutningskostnað og kostnað vegna tolla eða annarra innflutningsgjalda sem kunna að leggjast á vöruna.
„Þar sem ákveðin óvissa hefur ríkt að undanförnu um áhrif mögulegra tolla í Bandaríkjunum viljum við veita markaðsaðilum skýrari mynd af stöðunni. Eins og kunnugt er, var innflutningur á vörum frá Íslandi feldur undir lægsta stig nýju tollanna í Bandaríkjunum sem boðaðir voru í byrjun apríl, eða 10%. Þar sem vöruskiptajöfnuður milli landanna er Bandaríkjunum í hag, og hagstæður vöruskiptajöfnuður er höfuðmarkmið tollastefnunnar, teljum við litlar líkur á að hærri tollur verði lagður á innflutning lyfja frá Íslandi en á aðrar vörur. Þá bendir margt til þess að stjórnvöld vestra muni hafa í huga að hliðstæður gegna mikilvægu hlutverki í að auka aðgengi sjúklinga að líftæknilyfjum og að lækka lyfjakostnað,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech. „Ef settur yrði á 10% tollur síðari hluta ársins, myndi innflutningsverð á lyfjum frá Alvotech til Bandaríkjanna hækka um minna en 1% af áætluðum heildartekjum Alvotech af sölu lyfja á árinu. Þessi kostnaður félli einnig ekki á Alvotech. Ef við lítum til lengri tíma, að teknu tilliti til þeirra lyfja sem við hyggjumst setja á markað á næstu árum og aukinnar sölu, myndi áhrif slíkra tolla í Bandaríkjunum enn nema aðeins örfáum prósentum af áætluðum heildartekjum okkar af lyfjasölu.“
Um Alvotech
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum. Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Advanz Pharma (EES, Bretland, Sviss, Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland), Dr. Reddy’s (Evrópa, Bandaríkin), Biogaran (Frakkland), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).
Meiri upplýsingar er að finna á , , og almennri . Fylgið okkur á samfélagsmiðlum: , , , og
Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið
Benedikt Stefánsson, forstöðumaður
