Kvika banki hf.: Afkoma Kviku banka á þriðja ársfjórðungi 2025
Á stjórnarfundi þann 5. nóvember 2025 samþykktu stjórn og forstjóri árshlutauppgjör samstæðu Kviku banka hf. („Kvika“) fyrir þriðja ársfjórðung og fyrstu níu mánuði ársins 2025.
Helstu atriði í afkomu þriðja ársfjórðungs (3F 2025):
- Hagnaður fyrir skatta nam 1.969 m.kr., samanborið við 1.813 m.kr. á 3F 2024 og hækkaði því um 156 m.kr. eða 8,6%.
- Hagnaður af áframhaldandi starfsemi samstæðunnar eftir skatta nam 1.472 m.kr. á 3F 2025, samanborið við 1.398 m.kr. á 3F 2024 og hækkaði um 74 m.kr. eða 5,3%.
- Hreinar vaxtatekjur námu 2.953 m.kr. á 3F 2025, samanborið við 2.429 m.kr. á 3F 2024 og hækkuðu um 524 m.kr. eða 21,6%.
- Vaxtamunur var 4,0% á 3F 2025, samanborið við 3,7% á 3F 2024.
- Hreinar þóknanatekjur voru 1.571 m.kr. á 3F 2025, samanborið við 1.552 m.kr. á 3F 2024 og hækkuðu um 19 m.kr. eða 1,2%,
- Aðrar rekstrartekjur námu 338 m.kr. á 3F 2025, samanborið við 474 m.kr. á 3F 2024. og lækkuðu um 136 m.kr.
- Rekstrarkostnaður nam 2.740 m.kr. á 3F 2025, samanborið við 2.344 m.kr. á 3F 2024 og jókst um 396 m.kr. eða 16,9%
- Arðsemi efnislegs eigin fjár (RoTE) fyrir skatta á 3F 2025 var 17,8%.
- Hagnaður á hlut nam 0,33 kr. á 3F 2025, samanborið við 0,30 kr. af áframhaldandi starfsemi á 3F 2024.
Helstu atriði efnahags:
- Innlán frá viðskiptavinum námu 178 milljörðum króna í lok tímabilsins, samanborið við 163 ma.kr. í lok árs 2024 og jukust um 9,2% á tímabilinu
- Útlán til viðskiptavina voru 196 milljarðar króna í lok tímabilsins, samanborið við 150 ma.kr. í lok árs 2024 og jukust um 30,7% á tímabilinu
- Heildareignir námu 353 milljörðum króna í lok tímabilsins, samanborið við 355 ma.kr. í lok árs 2024.
- Eigið fé samstæðunnar var 68 milljarðar króna í lok tímabilsins, samanborið við 90 ma.kr. í lok árs 2024.
- Eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) var 23,0% í lok tímabilsins, samanborið við 22,8% í lok árs 2024. Hlutfallið tekur tillit til óendurskoðaðs hagnaðar fjórðungsins en eiginfjárhlutfall samkvæmt reglum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands var 22,5% í lok september 2025.
- Heildar lausafjárþekjuhlutfall (LCR) samstæðunnar var 659% í lok tímabilsins, samanborið við 360% í lok árs 2024.
- Heildareignir í stýringu námu 459 milljörðum króna í lok tímabilsins, samanborið við 456 ma.kr. í lok árs 2024.
Helstu atriði fyrstu níu mánaða ársins (9M 2025):
- Hagnaður fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi nam 4.695 milljónum króna, samanborið við 4.217 m.kr. á sama tímabili árið 2024 og hækkaði um 11,3%. Hagnaður fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi leiðréttur fyrir einskiptisliðum á fyrsta ársfjórðungi nam 5.583 m.kr., og hækkar því um 32,4%.
- Hagnaður af áframhaldandi starfsemi samstæðunnar eftir skatta nam 3.097 milljónum króna, samanborið við 3.162 m.kr. á sama tímabili árið 2024 og lækkaði 65 m.kr. eða 2,1% þegar ekki er tekið tillit til einskiptisliða á fyrsta ársfjórðungi.
- Hreinar vaxtatekjur námu 8.831 milljónum króna, samanborið við 7.183 m.kr. á sama tímabili árið 2024 og hækkuðu um 23,0%.
- Vaxtamunur var 4,1% á fyrstu níu mánuðum ársins 2025, samanborið við 3,9% á sama tímabili árið 2024.
- Hreinar þóknanatekjur námu 5.026 milljónum króna, samanborið við 4.536 m.kr. á sama tímabili árið 2024 og hækkuðu um 10,8%.
- Aðrar rekstrartekjur námu 581 milljónum króna, samanborið við 800 m.kr. á sama tímabili árið 2024 og lækkuðu um 27,4%.
- Rekstrarkostnaður nam 8.811 milljónum króna, samanborið við 7.744 milljónir króna á sama tímabili árið 2024 og hækkaði um 13,8%.
- Arðsemi efnislegs eigin fjár (RoTE) fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi skv. rekstrarreikningi nam 14,9% á fyrstu níu mánuðum ársins 2025. Arðsemi efnislegs eigin fjár (RoTE) fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi leiðrétt fyrir einskiptisliðum á fyrsta ársfjórðungi nam 17,7%
- Hagnaður á hlut af áframhaldandi starfsemi nam 0,68 kr. á fyrstu níu mánuðum ársins 2025, samanborið við 0,67 kr. á sama tímabili árið 2024.
Afkoma af eignum haldið til sölu:
- Afkoma eigna haldið til sölu eftir skatta samanstendur eingöngu af rekstri TM trygginga hf. sem rekið var sem eign haldið til sölu frá 1. janúar til 28. febrúar 2025 þegar félagið var selt. Afkoman er samandregin í einni línu í rekstrareikningi og nam 1.901 milljón króna á tímabilinu, samanborið við 1.541 m.kr. á sama tímabili árið 2024.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku:
„Afkoma Kviku á þriðja ársfjórðungi endurspeglar áframhaldandi styrk í kjarnastarfsemi bankans. Rekstrarhagnaður tímabilsins var stöðugur milli fjórðunga, studdur af vaxandi útlánum, sterkum vaxtamun og fjölbreyttum tekjustraumum. Þá er lausafjárstaða bankans áfram mjög sterk og eiginfjárhlutfall hátt, sem veitir svigrúm til frekari vaxtar.
Útlánavöxtur á grunni bætts vaxtamunar hefur verið drifkraftur árangursins á árinu. Við erum nú komin langleiðina að markmiðum ársins fyrir útlánvöxt og hefur gengið vel að þróa lánabók bankans í takt við stefnu okkar, með áherslu á fjölbreyttar og vel tryggðar lánveitingar.
Erfiðar aðstæður á verðbréfamörkuðum á Íslandi hafa haft neikvæð áhrif á þóknanamyndun bankans, einkum hjá Eignastýringu og í Markaðsviðskiptum, en prýðilega hefur gengið í Fyrirtækjaráðgjöf. Starfsemi Kviku í Bretlandi heldur áfram að skila góðum árangri bæði í lánastarfsemi og fjárfestingum. Aldrei hefur verið meiri hagnaður af rekstri bankans þar, en hann nam 563 milljónum króna í þriðja ársfjórðungi.
Verðbólga og vextir hafa reynst þrálátari en vonast var til, á sama tíma og greinileg merki eru um að hægjast sé á innlendum umsvifum. Þrátt fyrir þetta eru heimili og fyrirtæki almennt í sterkri stöðu til að standa af sér tímabundinn mótbyr, enda skuldastaða hófleg, sparnaður nokkur og vanskil áfram fátíð.
Þótt ljóst sé að atburðir síðustu vikna, á borð við rekstrarstöðvun álversins á Grundartanga og óvissu í kjölfar vaxtadóms Hæstaréttar, hafi áhrif á efnahagsumsvif til skemmri tíma, teljum við ekki að þeir hafi veruleg áhrif á starfsemi Kviku. Lausa- og eiginfjárstaða okkar er feiknasterk, útlánavöxtur er á áætlun og vaxtamunur hefur haldist stöðugur. Þá búum við að ákveðinni innbyggðri áhættudreifingu í ljósi þess að hluti lánabókar okkar er óháður íslenskum markaðsaðstæðum.
Samrunaferlið við Arion banka er í góðum farvegi og fer nú að líða undir lok áreiðanleikakannana og forviðræður við Samkeppniseftirlitið eru formlega hafnar. Við gerum ráð fyrir að ferlið muni taka nokkurn tíma en á meðan málinu vindur fram leggjum við áfram áherslu á sterkan daglegan rekstur og að hámarka virði fyrir hluthafa og viðskiptavini.“
Kynningarfundur og fjárfestakynning
Kynningarfundur fyrir hluthafa og markaðsaðila verður haldinn fimmtudaginn 6 nóvember kl. 08:30 í höfuðstöðvum bankans á 9. hæð í Katrínartúni 2, 105 Reykjavík. Fundinum verður jafnframt streymt á íslensku á eftirfarandi vefslóð:
Hægt er að senda tölvupóst með spurningum fyrir fund eða á meðan honum stendur á eða í gegnum Slido appið
Meðfylgjandi er fjárfestakynning. Að auki mun upptaka með enskum texta vera gerð aðgengileg á vefsvæði Kviku.
Viðhengi
