Kvika banki hf.: Anna Rut Ágústsdóttir aðstoðarforstjóri Kviku banka
Kvika banki hefur ráðið Önnu Rut Ágústsdóttur í starf aðstoðarforstjóra bankans. Anna Rut mun sinna starfinu samhliða hlutverki sínu sem framkvæmdastjóri rekstrar- og þróunarsviðs bankans og þannig styðja við áframhaldandi stjórnun og framkvæmd stefnumarkandi verkefna bankans.
Anna Rut hefur starfað innan Kviku samstæðunnar frá stofnun bankans árið 2015 og hjá forverum hans frá árinu 2007. Hún býr yfir víðtækri reynslu af starfsemi bankans og hefur sinnt fjölbreyttum störfum innan samstæðunnar. Áður en hún tók við starfi framkvæmdastjóra rekstrar- og þróunarsviðs árið 2022 var hún forstöðumaður fjármála og rekstrar hjá Kviku eignastýringu. Þar áður gegndi hún ýmsum lykilhlutverkum, meðal annars sem forstöðumaður á skrifstofu forstjóra og forstöðumaður viðskiptatengsla hjá Kviku auk þess sem hún starfaði um árabil á sviði áhættustýringar og eignaumsýslu. Anna Rut er með BSc gráðu í viðskiptafræði og MCF gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
Ráðning Önnu Rutar er liður í því að styrkja skipulag bankans og tryggja samfellu, skýra verkaskiptingu og öfluga framkvæmd á mikilvægum tímamótum í starfsemi Kviku banka. Með ráðningunni skapast aukið svigrúm fyrir Ármann Þorvaldsson, forstjóra Kviku, til að einbeita sér að stefnumótandi verkefnum, þar á meðal samrunaviðræðum við Arion banka, en forviðræður við Samkeppniseftirlitið standa enn yfir.
