Nova Klúbburinn hf.: Nova og Dineout sameina krafta sína
Nova kemur inn í eigendahóp Dineout og tekur sæti í stjórn félagsins
Nova kemur inn í eigendahóp Dineout og munu fyrirtækin vinna saman að vöruþróun og nýjum lausnum. Nova eignast 20% hlut í Dineout ásamt því að taka sæti í stjórn félagsins. Þá hefur Nova jafnframt kost á að auka við hlut sinn á næstu árum. Inga Tinna Sigurðardóttir, stofnandi og forstjóri Dineout, og Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- og forstjóri Nova, undirrituðu samning um kaupin í dag en samhliða var undirritaður samningur um fjármögnun til þróunar á nýjum lausnum í strategísku samstarfi við Nova.
Markmið kaupanna er að styrkja enn frekar FyrirÞig í Nova appinu sem er stærsti vildarklúbbur landsins. Kaupin fela í sér mikil tækifæri til að auka vöruframboð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja en einnig verður unnið að vöruþróun byggt á núverandi lausnum bæði Dineout og Nova, ásamt þróun á nýjum vörum.
Ör vöruþróun og vöxtur Dineout síðustu ára
Dineout var stofnað árið 2017 með það markmið að þróa borðabókunarkerfi fyrir íslenska veitingastaði. Síðan þá hefur fyrirtækið hannað 16 hugbúnaðarlausnir, þar á meðal kassakerfi, matarpöntunarkerfi, rafræn gjafabréf, viðburðakerfi og sjálfsafgreiðslulausnir, sem saman mynda stærsta markaðstorg landsins fyrir veitingaupplifanir.
Nýjasta vara sem Dineout hefur sett á markað er sinna.is sem er nýtt tímabókunarkerfi fyrir þjónustugeirann sem tengir viðskiptavini og þjónustufyrirtæki á borð við snyrtistofur, hárgreiðslustofur og einkaþjálfara. Í dag nýta yfir 600 fyrirtæki sér lausnir Dineout í daglegum rekstri.
Fjárfestingin liður í því að efla fríðindaklúbbinn og auka ánægju viðskiptavina
Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- og forstjóri Nova, segir viðskiptin mikilvægan þátt í að styrkja enn frekar sambandið við viðskiptavini. „Við finnum hvað aðdráttaraflið í Nova appinu er mikið, þetta er stærsti vildarklúbbur landsins, og viðskiptavinir okkar kunna að meta það þegar daglega lífið, skemmtunin og þjónustan sem fólk er að nýta sér verður partur af Nova upplifuninni.
Við horfum til vegferðar þar sem við getum nýtt sameiginleg tækifæri fyrir viðskiptavini, bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði, til þess að einfalda fólki lífið, spara því peninga, en líka hvetja það til að skemmta sér og njóta lífsins saman. Við viljum jafnframt einfalda fólki það að nýta allan ávinninginn sem fylgir því að vera viðskiptavinur Nova til þess að styrkja viðskiptavinasambandið enn frekar. Ég tel að kaupin og samstarfið muni styrkja þá vegferð.
Við hlökkum ekki síður til að þróa nýjar vörur og lausnir með frábæru teymi Dineout og taka dansinn saman. Þau hafa á undanförnum árum unnið ýmsar liprar og aðgengilegar lausnir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Við sjáum mikil tækifæri þar fyrir viðskiptavini okkar á fyrirtækjamarkaði þegar fram líða stundir,“ segir Margrét.
Aukinn kraftur með nýjum fjárfestum
„Það er mikill fengur fyrir okkur hjá Dineout að fá Nova inn sem fjárfesti. Fjárfestingin og samstarfið markar nýtt og spennandi skref í vexti og þróun Dineout.
Við hjá Dineout eigum margt sameiginlegt með Nova - bæði höfum við skorað á markaðinn og þróað vörur fyrir framtíðina með góðum árangri. Það er því frábært að fá liðsauka frá Nova í stjórnina okkar.
Við teljum að lausnirnar okkar falli mjög vel að vöruframboðinu í Nova appinu og munu sömuleiðis nýtast víðar í þjónustu þeirra. Að sama skapi mun sýnileiki viðskiptavina Dineout aukast. Við hlökkum til að auka vöruframboðið enn frekar og kynna nýjar lausnir til leiks í samstarfi við Nova,” segir Inga Tinna Sigurðardóttir, forstjóri og eigandi Dineout.
Viðhengi
