Nova Klúbburinn hf.: Sylvía Kristín Ólafsdóttir verður forstjóri Nova
Sylvía Kristín Ólafsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Nova. Hún mun taka við starfinu af Margréti Tryggvadóttur sem tilkynnti í byrjun sumars að hún hygðist láta af störfum í lok árs. Sylvía hefur störf hjá Nova með haustinu.
Sylvía Kristín kemur til Nova frá Icelandair þar sem hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri rekstrar. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Origo. Sylvía starfaði einnig um árabil hjá Amazon, fyrst við rekstur og áætlanagerð og síðan við Kindle deild fyrirtækisins þar sem hún sá um viðskiptagreind og vöruþróun fyrir vefbækur auk þess að leiða greiningar- og stefnumótunarvinnu fyrir samningagerð við bókaútgefendur.
„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Sylvíu til liðs við Nova og enginn vafi á að hún er rétta manneskjan til að taka við keflinu af Margréti seinna á árinu. Sylvía býr yfir mikilli þekkingu á rekstri og markaðsmálum, auk mikilvægrar reynslu úr tækni- og hugbúnaðarheiminum, þar sem fjölbreytt, vel samsett teymi og góð innri menning skapar árangur. Þessi þekking mun koma sér vel nú þegar við tökum stefnuna á enn frekari vöxt. Nova er í afburðasterkri stöðu til að renna enn frekari stoðum undir sterkan framtíðarvöxt félagsins og við hlökkum til næsta kafla í sögu Nova með Sylvíu.“, segir Sigríður Olgeirsdóttir, stjórnarformaður Nova
„Það er mikill heiður að fá að verða hluti af þeirri metnaðarfullu vegferð sem Nova er á og halda áfram að byggja fyrirtækið upp á þeirri sterku arfleifð sem Margrét skilur eftir sig, með því öfluga fólki sem starfar hjá Nova. Það eru mjög spennandi verkefni framundan. Nova er auðvitað traust og framsækið tækni- og innviðafyrirtæki en það er um leið alþekkt í íslensku viðskiptalífi hversu frábæra vinnustaðarmenningu og öflugt starfsfólk er að finna hjá fyrirtækinu. Þetta er í mínum huga lykillinn að árangri í rekstri góðra fyrirtækja. Ég hlakka gríðarlega til að kynnast því frábæra fólki sem starfar hjá Nova og sækja fram af krafti; horfa á tækifæri til vaxtar, sem ég held að séu mikil, og leggja áfram áherslu á að vera fyrst inn í framtíðina með snjallari lausnir.“, segir Sylvía Kristín Ólafsdóttir verðandi forstjóri Nova
Sylvía er með M.Sc. próf í Operational Research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt stundakennslu við verkfræðideild HÍ í rekstrarfræði, kvikum kerfislíkönum og verkefnastjórnun (MPM). Þá hefur Sylvía setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og sjóða.
Frekari upplýsingar veitir Sigríður Olgeirsdóttir, stjórnarformaður Nova, s. 844 2747,
Viðhengi
