Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf.: Samningur um viðskiptavakt við Arion banka hf. og Fossa fjárfestingarbanka hf.
Ölgerðin hefur gert nýja samninga um viðskiptavakt á hlutabréfum félagsins sem skráð eru á Nasdaq Iceland, við Arion banka hf. og Fossa fjárfestingarbanka hf. Samhliða hefur verið sagt upp núverandi samningum um viðskiptavakt.
Tilgangur samninganna um viðskiptavakt er að efla viðskipti með hlutabréf Ölgerðarinnar á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland (Kauphöllin) í því skyni að stuðla að því að seljanleiki hlutabréfa Ölgerðarinnar aukist, markaðsverð skapist og verðmyndun hlutabréfanna verði sem skilvirkust og gagnsæjust.
Samningar Ölgerðarinnar við Arion banka annars vegar og Fossa fjárfestingarbanka hins vegar kveða á um að viðkomandi viðskiptavaki skuli leggja fram, á hverjum viðskiptadegi, bæði reglubundin og fyrirsjáanleg kaup- og sölutilboð í hlutabréf Ölgerðarinnar í viðskiptakerfi Kauphallarinnar áður en Kauphöllin opnar og á meðan viðskipti eiga sér stað, að lágmarki í 300.000 hluti að nafnvirði hvor, á gengi sem viðkomandi viðskiptavaki ákveður.
Verðbil kaup- og sölutilboða skal ákvarðað með hliðsjón af verðskrefatöflu Kauphallarinnar eins og hún er hverju sinni, á þann veg að verðbil verði sem næst 1,5% en þó ekki lægra en 1,45%. Viðskiptavakarnir skulu hvor fyrir sig tryggja að 30.000 hlutir að nafnvirði hið minnsta séu á hverjum tíma innan 1,5% verðbils. Þó skal viðkomandi viðskiptavaka vera heimilt að setja fram kaup- og sölutilboð með lægra verðbili en að framan greinir við sérstakar aðstæður, t.d. í tengslum við breytingar á verðskrefatöflu Kauphallarinnar.
Samkvæmt samningi við Arion banka er viðskiptavaka heimilt að tvöfalda framangreind verðbil ef verðbreyting á hlutabréfum Ölgerðarinnar innan viðskiptadags er umfram 5% og að þrefalda þau ef verðbreyting er umfram 10%. Skyldur um hámarksmun kaup- og sölutilboða falla niður innan viðskiptadags ef viðskipti í gegnum markaðsvakt Arion banka með hluti Ölgerðarinnar nema samtals 40 m.kr. að markaðsvirði eða meira.
Samkvæmt samningi við Fossa fjárfestingarbanka er viðskiptavaka heimilt að auka hámarksverðbil í 3,0% ef verðbreyting á hlutabréfum Ölgerðarinnar innan sama viðskiptadags er umfram 5,0%. Skyldur um hámarksmun kaup- og sölutilboða falla niður innan viðskiptadags ef viðskipti í gegnum markaðsvakt Fossa fjárfestingarbanka með hluti Ölgerðarinnar nema samtals 40 m.kr. að markaðsvirði eða meira.
Samningarnir eru ótímabundnir og taka gildi frá og með þessari tilkynningu. Samningsaðilum er heimilt að segja þeim upp hvenær sem er á samningstímanum með 14 daga fyrirvara eða eftir samkomulagi hverju sinni.
Nánari upplýsingar veitir:
Jón Þorsteinn Oddleifsson, fjármálastjóri,
