REITIR: Uppgjör fyrstu níu mánaða 2025
Afkoma af rekstri á fyrstu níu mánuðum ársins var góð og í samræmi við áætlanir félagsins. Tekjur voru 13.401 millj. kr. og jukust um 10,5% milli ára og 6% umfram verðlag. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu var 8.769 millj. kr. og jókst um 9%. Heildarhagnaður samstæðunnar á árshlutanum var 5.765 millj. kr. samanborið við 10.373 millj. kr. árið áður, en breyting milli ára er að miklu leyti til komin vegna minni verðbólgu.
Fjárfesting nálgast markmið og vaxtaráform raungerast
Vel gengur að framfylgja vaxtarstefnu félagsins og við birtingu uppgjörsins hefur félagið fjárfest fyrir 12,5 ma. kr. í nýjum eignum, endurbótum á núverandi eignasafni og þróunarverkefnum, og nálgast þar með markmið um 13 ma. kr. fjárfestingu á árinu. Arðsemi af nýjum kaupum er 7,8% en félagið hefur fjárfest í fjölbreyttum eignum á höfuðborgarsvæðinu þar á meðal hótel-, verslunar-, skrifstofu- og iðnaðareignum.
Raunvöxtur af óbreyttu eignasafni milli ára er um 2% og félagið hefur fjárfest í markvissum endurbóta- og framkvæmdaverkefnum sem auka tekjur af kjarnastarfsemi og verðmæti eignasafnsins.
Góð framvinda er í tveimur umfangsmestu þróunarverkefnum félagsins, 420 íbúða uppbyggingu á Kringlureit og 90.000 fm. blönduðum atvinnu- og íbúðakjarna á Korputúni. Bæði verkefnin eru komin úr skipulagsferli á framkvæmdastig. Þar að auki hefur félagið fjölda annarra þróunarverkefna í bígerð á ólíkum stigum sem hafa það sammerkt að mæta vaxandi eftirspurn samfélagsins um uppbyggingu fasteigna og innviða.
Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita:
„Stöðugur vöxtur í tekjum og rekstrarhagnaði yfir árið endurspeglar markvissa vinnu við að framfylgja metnaðarfullri vaxtarstefnu félagsins og er 6% raunvöxtur tekna til marks um góðan árangur. Félagið beitir þekkingu og reynslu við að velja af kostgæfni vel staðsettar, arðbærar og eftirsóttar eignir til þess að stækka eignasafnið og sérsníða húsnæði að þörfum viðskiptavina okkar. Þróunarverkefni félagsins eru vaxtarstökkpallur til lengri tíma. Verkefnin sem eru á teikniborðinu eru fjölbreytt að stærð og tegund og munu koma til með að styðja við kröftugan og áframhaldandi raunvöxt á næstu árum. Horfur eru bjartar og gera eingöngu ráð fyrir þeim verkefnum sem eru þegar í farvegi en félagið áformar í takt við stefnu sína að ráðast í fleiri verkefni sem styðja við vöxt og fela í sér uppbyggingu sem gagnast samfélaginu.“
Árshlutauppgjör níu mánaða 2025
Lykiltölur uppgjörsins eru eftirfarandi:
| Lykiltölur rekstrar | 9M 2025 | 9M 2024 |
| Leigutekjur | 13.401 | 12.123 |
| Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna | -3.795 | -3.315 |
| Stjórnunarkostnaður | -837 | -766 |
| Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu | 8.769 | 8.042 |
| Matsbreyting fjárfestingareigna | 6.797 | 13.215 |
| Hrein fjármagnsgjöld | 8.278 | 7.969 |
| Hagnaður og heildarhagnaður | 5.765 | 10.373 |
| Hagnaður á hlut | 8,3 kr. | 14,7 kr. |
| Lykiltölur efnahags | 30.9.2025 | 31.12.2024 |
| Fjárfestingareignir | 243.238 | 226.396 |
| Handbært og bundið fé | 2.709 | 2.337 |
| Heildareignir | 248.768 | 231.369 |
| Eigið fé | 74.195 | 72.429 |
| Vaxtaberandi skuldir | 142.495 | 128.840 |
| Eiginfjárhlutfall | 29,8% | 31,3% |
| Skuldsetningarhlutfall | 60,2% | 58,6% |
| Lykilhlutföll | 9M 2025 | 9M 2024 |
| Nýtingarhlutfall eigna (tekjuvegið) | 94,3% | 94,9% |
| Arðsemi tekjuberandi eigna | 5,5% | 5,7% |
| Rekstrarhagnaðarhlutfall | 61,7% | 62,9% |
| Rekstrarkostnaðarhlutfall | 26,7% | 25,9% |
| Stjórnunarkostnaðarhlutfall | 5,9% | 6,0% |
| *allar tölur í millj. kr. |
Horfur ársins
Horfur ársins eru óbreyttar frá uppgjöri fyrri árshelmings þegar stjórnendur uppfærðu tekjuspá fyrir árið 2025 og til lengri tíma.
Gert er ráð fyrir að tekjur verði á bilinu 17.900-18.200 millj. kr. og jafnframt er gert ráð fyrir hlutfallslega sambærilegri aukningu á rekstrarhagnaði sem verður á bilinu 11.850-12.150 millj. kr.
Félagið áætlar að raunvöxtur verði að jafnaði 6% til ársins 2027 og að tekjur verði um 21.500 millj. kr.
Tekjuspá félagsins tekur eingöngu tillit til núverandi verkefna, skuldbindinga og fjárfestinga sem eru þegar í farvegi eða staðfest.
Kynningarfundur í streymi
Á rafrænum kynningarfundi þann 11. nóvember kl. 8:30 munu Guðni Aðalsteinsson, forstjóri, og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, kynna uppgjörið og svara spurningum.
Streymi fundarins má nálgast á slóðinni:
Fjárfestar sem fylgjast með streymi geta sent spurningar sem óskað er eftir að verði teknar fyrir á fundinum á netfangið
Uppgjörið og kynningarefni er aðgengilegt á fjárfestasíðu Reita .
Um Reiti fasteignafélag
Reitir er leiðandi fyrirtæki í fasteignaþróun ásamt rekstri og eignarhaldi atvinnuhúsnæðis. Vöxtur Reita byggir á þróun og fjárfestingu í borgarinnviðum sem styðja við sjálfbært samfélag.
Innan eignasafns Reita eru um 500 þúsund fermetrar atvinnuhúsnæðis sem hýsir fjölbreytta atvinnustarfsemi og ríkisstofnanir. Gagnkvæmur ávinningur Reita, samstarfsaðila og samfélags er lykilþáttur í starfsemi Reita.
Fyrirtækið er almenningshlutafélag skráð í Kauphöll síðan 2015. Eigendur eru að stærstum hluta íslenskir lífeyrissjóðir.
Nánari upplýsingar veita:
Guðni Aðalsteinsson, forstjóri, eða í síma 575 9000 og 624 0000
Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, eða í síma 575 9000 og 699 4416.
Viðhengi
