Síminn hf. - Hjörtur og Sæunn í framkvæmdastjórn Símans
Hjörtur Þór Steindórsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri Símans. Hann tekur við starfinu af Óskari Haukssyni sem hefur ákveðið að láta af störfum í lok september.
Hjörtur hefur starfað hjá Íslandsbanka í nítján ár, árin 2013-2019 sem forstöðumaður á fyrirtækjasviði og svo frá árinu 2019 sem forstöðumaður á sviði fyrirtækja og fjárfesta. Áður starfaði hann í fimm ár sem lána- og fjárfestingastjóri hjá UPS Capital í Bandaríkjunum.
Hjörtur hefur lokið B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Hartford háskóla í Connecticut og M.A. gráðu í hagfræði frá Trinity College í sama fylki Bandaríkjanna. Þá hefur Hjörtur einnig lokið námi í stjórnun frá Wharton Business School og prófi í verðbréfaviðskiptum.
Þá hefur Sæunn Björk Þorkelsdóttir verið ráðin framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Símans. Sæunn tekur við starfinu af Vésteini Gauta Haukssyni sem hefur ákveðið að láta af störfum, en verður forstjóra áfram til ráðgjafar næstu mánuði.
Sæunn hefur starfað sem forstöðumaður innkaupa, vörustýringar og upplýsingatækni hjá Controlant, þar sem hún hóf störf árið 2021. Áður sinnti hún ýmsum stjórnendastöðum hjá Eimskip, síðast sem forstöðumaður innkaupastýringar og kostnaðareftirlits, en þar á undan m.a. sem deildarstjóri í Hamborg og ferlastjóri félagsins. Auk þess hefur hún setið í ýmsum stjórnum fyrirtækja.
Sæunn hefur lokið B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í alþjóðastjórnun frá Strathclyde University í Glasgow.
Samhliða stjórnendabreytingum verða gerðar skipulagsbreytingar á fyrirtækjasviði, en auglýsingamiðlun færist frá sviðinu og heyrir beint undir forstjóra.
María Björk Einarsdóttir, forstjóri:
„Það er mikill fengur í Hirti og Sæunni. Þau búa að dýrmætri reynslu í stjórnun, sölu og fjármögnun, sem mun gagnast vel á nýju vaxtarskeiði félagsins næstu misseri.
Samhliða öflugum liðsauka gerum við skipulagsbreytingar á fyrirtækjasviði. Auglýsingamiðlun hefur orðið að stöndugri stoð í rekstrinum samhliða vel heppnaðri yfirtöku á Billboard og stöðugri sókn í Sjónvarpi Símans.
Reynslumiklir stjórnendur auglýsingamiðlunar munu nú heyra beint undir forstjóra á sama tíma og fyrirtækjasvið, undir nýrri forystu Sæunnar, mun einblína á áframhaldandi vöxt í þróun og sölu á fjarskipta- og tæknilausnum á fyrirtækjamarkaði þar sem mikil tækifæri liggja.
Ég vil þakka Óskari og Vésteini Gauta fyrir frábært samstarf og dýrmætt framlag til félagsins undanfarin ár. Við óskum þeim öll góðs gengis í sínum nýju hlutverkum.“
Nánari upplýsingar veitir María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans, á .
