Síminn hf. - Kaup á öllu hlutafé í Opnum Kerfum hf. og Öryggismiðstöð Íslands hf.
Síminn hf. hefur undirritað samninga um kaup á öllu hlutafé í Opnum kerfum hf. (OK) og Öryggismiðstöð Íslands hf. (ÖMÍ).
Samanlagt heildarvirði (e. enterprise value) OK og ÖMÍ í viðskiptunum nemur 13.750 milljónum króna að viðbættum leiguskuldbindingum sem eru áætlaðar um 1.000 milljónir króna. Endanlegt kaupverð til greiðslu ræðst þó meðal annars af stöðu nettó vaxtaberandi skulda og veltufjármuna á viðmiðunardegi uppgjörs.
Kaupin verða fjármögnuð með hlutafé í Símanum, lánsfé frá Arion banka, og handbæru fé. Miðað er við að um 6.125 milljónir króna verði greiddar með afhendingu u.þ.b. 428 milljón hluta. Endanlegur fjöldi hluta mun þó ráðast af kaupverði eftir leiðréttingu vegna veltufjármuna og skulda auk þess sem gengi hlutanna hækkar sem nemur 10% ársvöxtum fram að endanlegum frágangi viðskiptanna. Gert er ráð fyrir að seljendur muni þannig eignast um 15% hlut í Símanum og hafa þeir skuldbundið sig til að eiga hlutabréfin í að lágmarki tvö ár frá því að kaupin ganga í gegn.
Viðskiptin eru m.a. háð skilyrðum um samþykki Samkeppniseftirlitsins, sem og samþykki hluthafafundar Símans sem boðað verður til á næstu vikum. Á fundinum verður gerð ítarlega grein fyrir viðskiptunum og stefnu vaxandi samstæðu.
Verði af viðskiptunum og miðað við að forsendur Símans um samlegð gangi eftir er áætlað að velta Símans aukist um 16.000 milljónir króna og EBITDA um 2.300 milljónir króna á ársgrundvelli þegar samlegðaráhrif eru að fullu komin fram. Gera má ráð fyrir að árleg fjárfestingarþörf aukist um 400 - 500 milljónir króna.
Verði af kaupunum á félögunum tveimur, ásamt kaupunum á Greiðslumiðlun Íslands sem tilkynnt var um þann 23. október sl., er áætlað að tekjur samstæðunnar verði um 48 milljarðar króna og EBITDA hátt í 10 milljarðar króna á ársgrundvelli þegar samlegðaráhrif eru að fullu komin fram.
Seljendur eru sjóður á vegum Vex ehf. ásamt öðrum hluthöfum félaganna. Aðrir helstu hluthafar í ÖMÍ eru Feier ehf. og Ragnar Þór Jónsson. Aðrir helstu hluthafar í OK eru Fiskisund ehf. og Eskimo Rental ehf.
María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans:
„Kaupin eru stórt skref í vaxtarvegferð samstæðunnar og greiða leið nýrra tækifæra. Eins og við höfum áður sagt frá er unnið að því að breyta skipulagi samstæðu Símans og stefnan er að þessi tvö öflugu félög starfi sem sjálfstæðar einingar innan hennar þar sem þau geta áfram vaxið og eflst. Með stærri og fjölbreyttari samstæðu fáum við aukinn slagkraft í vöruþróun á virðisaukandi lausnum og getum þjónustað viðskiptavini okkar enn betur.
OK hefur verið í miklum vexti, en líkt og Síminn á félagið langa sögu og hefur verið brautryðjandi í upplýsingatækni um árabil. Með kaupunum breikkar vöruframboð samstæðunnar á fyrirtækjamarkaði, en framúrskarandi vörur, viðskiptasambönd og starfsfólk OK opna þar á fjölmörg ný sóknarfæri. Undanfarið hefur OK aukið vægi þjónustutekna í rekstrinum með öflugri vöruþróun, þar sem þjónustuleiðin „Stafrænt faðmlag“ hefur spilað lykilhlutverk til viðbótar við öflugar netöryggislausnir o.fl. Þá gerir áralangt viðskiptasamband við HP félaginu kleift að bjóða fyrsta flokks notendabúnað sem er þekktur alþjóðlega fyrir gæði og öryggi.
Kaupin á Öryggismiðstöðinni eru til marks um áherslu okkar á að vera valkostur öryggis og trausts á markaði, en öflugri vörumerki eru vandfundin í þeim efnum. Öryggismiðstöðin hefur sýnt mikla seiglu undanfarin ár í að skapa ný tækifæri við síbreytilegar aðstæður í samfélaginu og má því segja að við séum að kaupa árangursdrifna menningu vaxtar, ekki síður en einstakar vörur. Félagið hefur einnig stigið áhugaverð skref inn á markað fyrir heilbrigðis- og velferðarþjónustu og er vel í stakk búið til að styðja við heilbrigðiskerfið í nýjum áskorunum vegna öldrunar þjóðarinnar.
Kaupin á þessum tveimur öflugu félögum, til viðbótar við vel heppnaðar yfirtökur síðustu ára, sýna skýrt að umbreyting Símans úr fjarskipta- og innviðafyrirtæki yfir í fjölbreytta stafræna samstæðu er að raungerast. Við erum ánægð að fá öflugan hóp einkafjárfesta inn í hluthafahópinn á þessum tímamótum, sem hefur trú á vegferðinni og vill styðja við hana.“
-
Nánari upplýsingar veitir María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans hf. ()
Innherjaupplýsingar:
Upplýsingarnar í þessari tilkynningu töldust vera innherjaupplýsingar fyrir birtingu þeirra, eins og skilgreint er í 7. gr. reglugerðar Evrópusambandsins um markaðssvik nr. 596/2014, og eru birtar í samræmi við skyldur Símans samkvæmt 17. gr. þeirrar reglugerðar. Við birtingu þessarar tilkynningar teljast þessar innherjaupplýsingar nú vera opinberar.
