Síldarvinnslan hf. – Niðurstöður aðalfundar 20. mars 2025 og útgáfa samfélagsskýrslu
Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn í Safnahúsinu í Neskaupstað og rafrænt þann 20. mars 2025. Mætt var fyrir 91,89 % atkvæða.
Hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum fundarins:
Ársreikningur
Aðalfundur samþykkti ársreikning félagsins.
Tillaga um greiðslu arðs
Samþykkt var að arðgreiðsla á árinu 2024 vegna rekstrarársins 2024 verði 1,27 kr. á hlut eða 2.349,4 milljónir kr. (um 17 milljónir USD á lokagengi ársins 2024). Arðurinn verður greiddur 26. mars 2025. Réttur hluthafa til arðgreiðslu miðast við hlutaskrá 24. mars 2025.
Tillaga um starfskjarastefnu
Tillaga að starfskjarastefnu var lögð fram og var hún samþykkt.
Ákvörðun um þóknun til stjórnar félagsins
Samþykkt var að stjórnarlaun vegna ársins 2025 verði sem hér segir: Formaður verði með kr. 620.000 á mánuði en aðrir stjórnarmenn með 415.000. Varamenn verði með kr. 210.000 á mánuði.
Kosning stjórnar félagsins
Í stjórn félagsins voru kjörin: Anna Guðmundsdóttir, Baldur Már Helgason, Erla Ósk Pétursdóttir, Guðmundur Rafnkell Gíslason og Þorsteinn Már Baldvinsson. Varamenn: Arna Bryndís Baldvins McClure og Ingi Jóhann Guðmundsson. Samsetning stjórnar uppfyllir ákvæði laga og samþykkta félagsins um kynjahlutfall.
Kosning endurskoðenda
Samþykkt var að endurskoðandi félagsins fyrir næsta ár verði endurskoðunarfélagið PricewaterhouseCoopers ehf.
Tillaga um endurskoðunarnefnd
Samþykkt var tillaga stjórnar um tilnefningu nefndarmanns í endurskoðunarnefnd. Tilnefndur Guðmundur Kjartansson, löggiltur endurskoðandi.
Tillaga um heimild stjórnar til kaupa á eigin bréfum
Aðalfundur samþykkti að framlengja heimild stjórn félagsins til að kaupa eigin hluti í félaginu til næstu átján mánaða.
Stjórn félagsins kom saman í kjölfar aðalfundar og hefur skipt með sér verkum. Var ákveðið að Þorsteinn Már Baldvinsson yrði stjórnarformaður og Guðmundur Rafnkell Gíslason varaformaður stjórnar.
Samfélagsskýrsla Síldarvinnslunnar 2024
Samfélagsskýrsla Síldarvinnslunnar fyrir árið 2024 var gefin út og kynnt í dag á aðalfundi félagsins í Neskaupstað. Útgáfa samfélagsskýrslu er mikilvægur liður í upplýsingagjöf félagsins um ófjárhagslega þætti í starfsemi félagsins. Í skýrslunni er meðal annars að finna nákvæmt umhverfisbókhald samstæðunnar fyrir árið 2024 sem og ýmsar aðrar upplýsingar sem tengjast stjórnarháttum, sjálfbærni- og samfélagsmálum. Líkt og í samfélagsskýrslum fyrri ára er fjallað um fjölbreytileg málefni sem varða hvernig félagið tengist þeim samfélögum sem það starfar í. Í henni má m.a. finna umfjöllun um helstu áfanga ársins og áherslur félagsins í mannauðs- og öryggismálum. Þá er í skýrslunni yfirlit um þau samfélagsverkefni sem félagið studdi á árinu og einnig það samfélagsspor sem félagið skildi eftir sig á árinu 2024.
Upplýsingar í skýrslunni ná til Síldarvinnslunnar og dótturfélaga á Íslandi. Sem fyrr tekur skipulag skýrslunnar mið af leiðbeiningum frá Nasdaq Ísland kauphöllinni um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja með sérstaka áherslu á sjálfbærni. Hins vegar voru tekin fyrstu skref í átt að aðlögun að væntanlegum lagabreytingum um ófjárhagslega upplýsingagjöf. Við gerð skýrslunnar var einnig horft til þeirra áhersluatriða sem felast í sjálfbærnistefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Loks er fjallað um niðurstöður úr tvöfaldri mikilvægisgreiningu sem unnin var í samvinnu við Deloitte á árinu 2024.
Síldarvinnslan hefur vaxið og dafnað á síðustu árum og áratugum og er kjölfestufyrirtæki í þeim samfélögum sem fyrirtækið starfar í. Samfélagsskýrslan er liður í að greina frá því sem vel er gert og benda á það sem betur má fara, því ávallt eru möguleikar til að gera betur.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar:
„Helsta markmið Síldarvinnslunnar með útgáfu samfélagsskýrslu er að auka gagnsæi um starfsemi félagsins. Ófjárhagslegar upplýsingar vegna starfsemi félagsins eru ekki síður mikilvægar en fjárhagslegar. Við gefum nú út samfélagsskýrslu sjötta árið í röð og hefur hún þróast með árunum. Skýrslan er fræðandi um fjölbreytta anga starfseminnar og er gott og aðgengilegt yfirlit um mikilvæga þætti hennar. Síldarvinnslan hefur yfir að ráða frábæru starfsfólki sem er sterkasta stoð félagsins. Í þessari skýrslu er lögð áhersla á okkar mannauð og í henni má t.a.m. finna viðtöl við starfsfólk sem sinnir mikilvægum og fjölbreyttum störfum fyrir Síldarvinnsluna frá degi til dags.
Síldarvinnslan vill vera í fararbroddi á sviði samfélagslegrar ábyrgðar. Allt frá stofnun félagsins árið 1957 hefur fyrirtækið verið kjölfestufyrirtæki í sjávarútvegi og því fylgir mikil ábyrgð. Hagsmunir samfélaga og fyrirtækja eiga að fara saman, þannig lítum við á það sem styrk að vinna með og styðja við þau öflugu samfélög þar sem við störfum“.
Nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins
Viðhengi
