Síldarvinnslan: Ársuppgjör 2024
- Loðnubrestur og eldsumbrot skýra samdrátt í tekjum og EBITDA.
- Eldsumbrot hafa bitnað á landvinnslu bolfisks í Grindavík.
- Erfiðara var að sækja makrílinn en árið áður.
- Síldveiðar í haust með besta móti.
- Markaðir fyrir uppsjávarafurðir hafa verið sterkir og verð góð á flestum afurðum.
- Mjölverð mjög sterk út árið en lýsisverð gefið eftir.
- Sala á bolfiskafurðum gengið vel.
- Frystitogarinn Blængur aldrei átt eins gott ár.
- Gott ár hjá hlutdeildarfélaginu Arctic Fish og horfur góðar.
- Bolfiskvinnslu á Seyðisfirði var lokað og fækkað um tvö bolfiskskip.
- Kostnaðarliðir og álögur að hækka mikið.
Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins
- Hagnaður ársins nam 44,1 m USD og 15,7 m USD á fjórða ársfjórðungi.
- Rekstrartekjur ársins námu 325,1 m USD og 88,3 m USD á fjórða ársfjórðungi.
- EBITDA var 84,0 m USD eða 25,8% á árinu og 26,0 m USD eða 29,4% á fjórða ársfjórðungi.
- Heildareignir samstæðunnar í lok ársins námu 1.060 m USD og eiginfjárhlutfall var 60,7%.
Rekstur
Tekjur á árinu 2024 námu 325,1 m USD og 88,3 m USD á fjórða ársfjórðungi samanborið við 404,7 m USD árið 2023 og 86,8 USD á fjórða ársfjórðungi 2023. Rekstrartekjur drógust því saman um 79,6 m USD á milli ára eða 19,7%. Tekjusamdrátturinn skýrist af því að ekki var veidd loðna á árinu 2024 og einnig höfðu náttúruhamfarirnar við Grindavík neikvæð áhrif.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á árinu 2024 var 84,0 m USD eða 25,8% af rekstrartekjum. Á árinu 2023 var EBITDA 121,8 m USD og 30,1% af rekstrartekjum. Lækkun á milli tímabila nemur því 37,8 m USD. Á fjórða ársfjórðungi 2024 var EBITDA 26,0 m USD eða 29,4% af rekstrartekjum en hún var 25,4 m USD eða 29,3% af rekstrartekjum á fjórða ársfjórðungi 2023.
Hagnaður fyrir tekjuskatt var 56,1 m USD árið 2024 samanborið við 92,2 m USD árið 2023. Á fjórða ársfjórðungi 2024 var hagnaður fyrir tekjuskatt 20,3 m USD samanborið við 12,9 m USD á sama tímabili 2023. Tekjuskattur fyrir árið 2024 nam 12,0 m USD og hagnaður ársins því 44,1 m USD samanborið við 73,4 m USD hagnað árið 2023. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi var 15,7 m USD samanborið við 10,6 m USD á sama tímabili 2023.
Efnahagur
Heildareignir námu 1.059,6 m USD í lok desember 2024. Þar af voru fastafjármunir 853,6 m USD og veltufjármunir 206,0 m USD. Í lok árs 2023 námu heildareignir 1.093,8m USD og þar af voru fastafjármunir 884,2 m USD og veltufjármunir 209,6 m USD. Fastafjármunir drógust því saman um 30,6 m USD. Helstu fjárfestingar ársins voru vegna kaupa á ísfisktogara og framkvæmda við stækkun fiskmjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað. Neikvæður þýðingarmunur veldur lækkun á bókfærðu virði aflaheimilda og eignarhluta í hlutdeildarfélögum þar sem Vísir ehf. og Arctic Fish eru gerð upp í EUR. Gengi EUR veiktist um 5,8% gagnvart USD á árinu. Veltufjármunir lækkuðu um 3,6 m USD. Handbært fé og viðskiptakröfur hækkuðu á meðan birgðir lækkuðu verulega á milli tímabilanna.
Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 643,1 m USD. Eiginfjárhlutfall var 60,7% í lok tímabilsins en það var 58,6% í lok árs 2023.
Heildarskuldir og -skuldbindingar félagsins voru 416,5 m USD og lækkuðu um 36,9 m USD frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 274,6 m USD í lok tímabilsins og lækkuðu um 30,1 m USD frá áramótum.
Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri nam 80,0 m USD á árinu 2024 en var 75,2 m USD á sama tímabili 2023. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 14,4 m USD og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 45,1 m USD. Handbært fé í lok tímabilsins nam 101,8 m USD.
Meginniðurstöður í íslenskum krónum á árinu 2024
Séu niðurstöður rekstrarreiknings ársins reiknaðar í íslenskar krónur á meðalgengi ársins (1 USD=137,93 kr.) voru rekstrartekjur 44,8 milljarðar króna. EBITDA nam 11,6 milljörðum króna og hagnaður ársins var 6,1 milljarður króna. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskar krónur á gengi 31. desember 2024 (1 USD=138,2 kr.) voru eignir samtals 146,4 milljarðar króna, skuldir 57,6 milljarðar króna og eigið fé 88,9 milljarðar króna.
Samþykkt ársreiknings
Uppgjör ársins 2024 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar hf. hinn 6. mars 2025. Ársreikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).
Kynningarfundur 6. mars 2025
Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi fimmtudaginn 6. mars klukkan 16:00. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar . Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á YouTube. Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið og reynt verður að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.
Frá forstjóra
Árið var krefjandi og samdráttur í rekstri skýrist að mestu leyti með aflabresti í loðnu í byrjun árs og eldsumbrotum á Reykjanesi.
Þrátt fyrir fyrrnefnd áföll tókst ágætlega að spila úr stöðunni og seinni hluti ársins var góður og má nefna að vinnslur í Grindavík störfuðu á fullum afköstum frá 1. september.
Til að bregðast við umbrotum í Grindavík var sett upp saltfiskvinnsla til bráðabirgða í Helguvík og fiskur fluttur til vinnslu í Þýskalandi. Margvíslegur einskiptiskostnaður hefur hlotist af þessu umróti sem enn sér ekki fyrir endann á.
Veiðar og vinnsla á kolmunna gengu vel á árinu. Verð á fiskimjöli voru sterk, en verð á lýsi hafa gefið eftir. Makrílvertíðin gekk þokkalega, veiðar drógust saman en meira var unnið til manneldis, markaðir voru góðir. Samdráttur í makrílkvótum undanfarið og að ekki náðist samkomulag um stofninn er áhyggjuefni.
Síldveiðar gengu vel á haustmánuðum. Líkt og með makrílinn var meiri áhersla lögð á vinnslu til manneldis, og eftirspurn var sterk á öllum helstu mörkuðum. Íslenska sumargotssíldin er eini síldarstofninn í Norður-Atlantshafi með MSC-vottun, sem styrkir markaðsstöðu afurðanna.
Frystitogarinn Blængur náði góðum árangri á liðnu ári. Landvinnsla í Grindavík gekk vel á fjórða ársfjórðungi. Óvissa vegna jarðhræringa á Reykjanesi er enn til staðar.
Bolfiskmarkaðir hafa almennt verið góðir og styrkst seinni hluta ársins. Kvótasamdráttur í Barentshafi hefur sett mark sitt á þorskmarkaði með aukinni eftirspurn og verðhækkunum.
Hlutdeildarfélagið Arctic Fish sýndi rekstrarbata og við trúum því að fiskeldi muni gegna lykilhlutverki í aukinni verðmætasköpun þjóðarinnar, þar eru spár um að slátra 15 þúsund tonnum á árinu 2025 og leyfi eru komin fyrir 29 þús. tonnum. Mikil uppbygging og fjárfesting er á næstu misserum í auknum lífmassa og búnað sem því fylgir.
Árið einkenndist af töluverðum samdrætti í tekjum og EBITDA, eins og rakið hefur verið, sem má að mestu rekja til loðnubrestsins og jarðhræringanna á Reykjanesi.
Félagið horfir fram á kostnaðarhækkanir og áskoranir í ytra umhverfi rekstrarins árið 2025. Samdráttur er í aflaheimildum uppsjávarfisks. Auk þess hafa laun og aðrir kostnaðarliðir hækkað undanfarin ár, sem setur aukinn þrýsting á reksturinn.
Ég hef áður vakið athygli á stöðu orkumála hér á landi, en ljóst er að orkuöflun þjóðarinnar hefur verið vanrækt til lengri tíma. Afleiðingin er takmarkað framboð á raforku, sem hefur leitt til umtalsverðra verðhækkana hjá raforkuframleiðendum. Samt er nú svo komið að vatnsstaða virkjana hefur lagast mikið síðustu vikur, er allt útlit fyrir að umtalsvert magn af orku muni renna um yfirfall Hálslóns í sumar komandi á sama tíma og fiskimjölsverksmiðjurnar á Austfjörðum brenna olíu í miklu magni.
Kolefnisgjöld hafa verið hækkuð á olíu ásamt öðrum álögum. Þessar aðstæður gera íslenska landvinnslu, bæði í bolfiski og uppsjávarfiski, sífellt veikari í samkeppni við önnur lönd.
Veiðigjöld á uppsjávarfisk hækkuðu verulega um síðustu áramót og munum við finna fyrir þeim áhrifum á komandi ári.
Sjávarútvegurinn er í alþjóðlegri samkeppni, og því er nauðsynlegt að standa vörð um samkeppnishæfni greinarinnar. Hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma er að tryggja fyrirsjáanleika, regluverk og umhverfi sem gerir útflutningsgreinar okkar samkeppnishæfar, þannig styðjum við best við lífskjör á landi hér.
Loðnubresti þurfum við að mæta með auknum rannsóknum og afla meiri þekkingar á þessum mikilvæga stofni. Áskoranir hafa fylgt sjósókn og sjávarútvegi Íslendinga allt frá upphafi. Í greininni starfar dugmikið fólk sem mun sjá tækifærin og aðlaga greinina að því umhverfi sem henni verður búin. Sjávarútvegur er íslensku þjóðinni mikilvægur og ef ráðamenn þjóðarinnar og aðilar í sjávarútvegi taka höndum saman og hlúa að greininni verður það svo áfram um ókomna tíð.
Fjárhagsdagatal
Ársuppgjör 2024 – 6. mars 2025
Aðalfundur 2025 – 20. mars 2025
1. ársfjórðungur 2025 – 22. maí 2025
2. ársfjórðungur 2025 – 28. ágúst 2025
3. ársfjórðungur 2025 – 27. nóvember 2025
Ársuppgjör 2025 – 5. mars 2026
Nánari upplýsingar
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri
Viðhengi
