REITIR: Uppgjör fyrri árshelmings 2025
Rekstur Reita á fyrri hluta ársins gekk vel og afkoma er í takt við útgefnar horfur. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu nam 5.674 millj. kr. og heildarhagnaður 2.771 millj. kr. á fyrri árshelmingi. Rekstrarhagnaður árshlutans óx um 8,3% samanborið við fyrra ár og leigutekjur jukust um 10,5% miðað við sömu tímabil, eða sem nemur 5,9% umfram verðlag. Lækkun verðbólgu undanfarið hefur haft jákvæð áhrif á fjármagnsgjöld samanborið við fyrra ár. Matshækkun fjárfestingareigna á fyrri hluta ársins nam um 3,6 milljörðum króna, og heildareignir samstæðunnar voru 238.735 millj. kr. og eigið fé 71.708 millj. kr. í lok júní sl.
Arðbærar fjárfestingar og markviss framkvæmdarverkefni stuðla að raunvexti tekna
Góður framgangur var á öllum sviðum vaxtarstefnu félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins. Fjárfest hefur verið fyrir 9,2 milljarða á árinu og þar eru meðtaldar skuldbindingar félagsins til fjárfestinga á upphafi þriðja ársfjórðungs. Fjárfestingin skiptist jafnt á milli kaupa á nýjum eignum og endurbóta og framkvæmda innan núverandi eignasafns. Arðsemi er áfram eitt helsta leiðarljós í fjárfestingum félagsins. Nýjar eignir sem bættust við eignasafnið á árinu skila 8,1% arðsemi og er áætluð tekjuaukning vegna þeirra um 424 millj. kr. ár ársgrunni. Meðal þessara eigna eru Bæjarlind 12, Víkurhvarf 6 og Hlíðarsmári 5-7, þar sem 201 Hótel er með starfsemi sína.
Þróunarverkefnum félagsins miðar vel og eru þrjú stærstu verkefnin komin á framkvæmdastig. Mikilvægum áfanga var náð í dag, 21. ágúst, vegna Kringlureits þegar félagið undirritaði viljayfirlýsingu við byggingarverktaka um hönnun á A-reit verkefnisins sem felur í sér uppbyggingu á 170 íbúðum. Til lengri tíma litið munu þessi verkefni standa undir meirihluta þess vaxtar, sem félagið hefur sett sér markmið um í vaxtarstefnu sinni. Lykilendurbótaverkefni fóru að skila tekjum á öðrum ársfjórðungi, þar á meðal Klíníkin við Ármúla, og Suðurlandsbraut 34. Áætluð arðsemi slíkra verkefna er að jafnaði hærri en hefðbundin fasteignakaup, þar sem oft er um að ræða sérhæfðar og sérsniðnar umbreytingar á húsnæði sem eru undirstaða fyrir starfsemi leigutakans.
Guðni Aðalsteinsson, forstjóri:
„Afkoma Reita á fyrri helmingi þessa árs er góð og 7% raunvöxtur tekna milli fjórðunga er til marks um afrakstur stefnumótandi fjárfestinga og framgangs í arðbærum verkefnum sem félagið stendur fyrir. Á sama tíma miðar umfangsmiklum þróunarverkefnum félagsins vel áfram og á þremur stærstu þróunarreitum félagsins iðar nú allt af lífi við framkvæmdir. Til lengri tíma munu þessi verkefni skila félaginu verulegri tekjuaukningu og við höfum uppfært horfur um tekjur og afkomu til næstu þriggja ára í samræmi við áætlaða verðmætasköpun þessara verkefna. Spá okkar til áranna 2025 til 2027 gerir ráð fyrir að raunvöxtur tekna haldi áfram og verði um 6% sem mun skila félaginu um 21,5 milljörðum í tekjur árið 2027 gangi áform félagsins eftir.
Við erum stolt af því að leiða verkefni sem skila hluthöfum okkar, fyrirtækjum í landinu og samfélaginu ábata. Á Korputúni geta framsækin fyrirtæki fundið glæsilegt, vel staðsett húsnæði undir starfsemi sína þar sem einstakur sveigjanleiki býðst við hönnun rýma. Áætlað er að fyrstu rýmin undir verslun og þjónustu verði afhent sumarið 2026. Við Nauthólsveg þar sem fyrrum skrifstofur öðlast nýtt hlutverk sem 87 rýma hjúkrunarheimili í nánd við náttúru og þjónustu mætum við brýnni þörf samfélagsins um fleiri hjúkrunarrými. Á Kringlureit rísa um 420 íbúðir í nýju borgarhverfi í hjarta Reykjavíkur og markar verkefnið mikilvægt framlag í íbúðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.
Sýn okkar er áfram leiðandi stef í allri starfsemi og við höldum áfram að beita víðamikilli þekkingu okkar á rekstri, þróun og umbreytingu fasteigna og innviða til þess að geta boðið fyrirtækjum og fólki í landinu húsnæði sem styður við blómlegt atvinnulíf og styrkir samfélagið okkar.“
Árshlutauppgjör fyrri árshelmings 2025
Stjórn Reita hefur samþykkt árshlutareikning samstæðunnar fyrir fyrri hluta ársins 2025. Lykiltölur uppgjörsins eru eftirfarandi:
Lykiltölur rekstrar | 6M 2025 | 6M 2024 |
Leigutekjur | 8.774 | 7.941 |
Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna | -2.557 | -2.177 |
Stjórnunarkostnaður | -543 | -522 |
Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu | 5.674 | 5.242 |
Matsbreyting fjárfestingareigna | 3.604 | 12.268 |
Rekstrarhagnaður | 9.278 | 17.510 |
Hrein fjármagnsgjöld | -5.651 | -5.736 |
Heildarhagnaður | 2.771 | 9.253 |
Hagnaður á hlut | 4,0 | 13,0 |
Lykiltölur efnahags | 30.6.2025 | 31.12.2024 |
Fjárfestingareignir | 234.529 | 226.396 |
Handbært og bundið fé | 1.833 | 2.337 |
Heildareignir | 238.735 | 231.369 |
Eigið fé | 71.708 | 72.429 |
Vaxtaberandi skuldir | 135.354 | 128.840 |
Eiginfjárhlutfall | 30,0% | 31,2% |
Skuldsetningarhlutfall | 59,4% | 58,4% |
Lykilhlutföll | 6M 2025 | 6M 2024 |
Nýtingarhlutfall (tekjuvegið) | 94,2% | 94,8% |
Arðsemi eigna | 5,5% | 5,7% |
Rekstrarhagnaðarhlutfall | 61,4% | 63,5% |
Rekstrarkostnaðarhlutfall | 27,5% | 26,0% |
Stjórnunarkostnaðarhlutfall | 5,8% | 6,2% |
*allar tölur í millj. kr. |
Horfur ársins
Horfur ársins 2025 um rekstrarhagnað hafa verið uppfærðar, og gert er ráð fyrir að tekjur verði á bilinu 17.900-18.200 millj. kr. sem er aukning um 200 millj. kr. Jafnframt er gert ráð fyrir hlutfallslega sambærilegri aukningu á rekstrarhagnaði sem verður á bilinu 11.850-12.150 millj. kr.
Helstu þættir að baki uppfærðum horfum félagsins, þar sem gert er ráð fyrir meiri tekjuvexti en áður var spáð, eru bæði innri og ytri fjárfestingar félagsins ásamt aðlögun leiguverðs vegna endurnýjun leigusamninga. Þar á meðal endurnýjun leigusamninga vegna tveggja hótela, Reykjavík Natura og Hilton Nordica.
Nánari upplýsingar og kynningarfundur í streymi
Reitir bjóða fjárfestum og markaðsaðilum á kynningarfund á morgun, föstudaginn 22. ágúst, þar sem Guðni Aðalsteinsson, forstjóri og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, munu kynna uppgjörið.
Fundinum verður að þessu sinni eingöngu streymt í gegnum netið og hefst kl. 8:30. Hægt er nálgast fundinn á slóðinni:
Fjárfestar geta sent spurningar sem óskað er eftir að verði teknar fyrir á fundinum á netfangið .
Kynningarefni fundarins er aðgengilegt á fjárfestasíðu Reita .
Um Reiti fasteignafélag
Reitir er leiðandi fyrirtæki í fasteignaþróun ásamt rekstri og eignarhaldi atvinnuhúsnæðis. Vöxtur Reita byggir á þróun og fjárfestingu í borgarinnviðum sem styðja við sjálfbært samfélag.
Innan eignasafns Reita eru um 480 þúsund fermetrar atvinnuhúsnæðis sem hýsir fjölbreytta atvinnustarfsemi og ríkisstofnanir. Gagnkvæmur ávinningur Reita, samstarfsaðila og samfélags er lykilþáttur í starfsemi Reita.
Fyrirtækið er almenningshlutafélag skráð í Kauphöll síðan 2015. Eigendur eru að stærstum hluta íslenskir lífeyrissjóðir.
Nánari upplýsingar
Upplýsingar veita Guðni Aðalsteinsson, forstjóri, netfang eða í síma 575 9000 og 624 0000 eða Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri netfang eða í síma 575 9000 og 699 4416.
Viðhengi
