SKEL fjárfestingafélag hf.: Styrkás undirritar samning um kaup á Hreinsitækni og HRT þjónustu
Styrkás hf., félag í 45,7% eigu SKEL, undirritaði í dag samning um kaup á öllu hlutafé í Hreinsitækni ehf., HRT þjónustu ehf. og tengdum félögum. Kaupsamningurinn er háður hefðbundnum fyrirvörum, þ.á m. um samþykki Samkeppniseftirlits.
Samstæða Hreinsitækni er leiðandi í umhverfis- og innviðaþjónustu fyrir sveitarfélög og fyrirtæki. Félagið hefur aðstöðu og tækjaflota í fjórum landshlutum og fjöldi starfsmanna er um 150 manns. Velta samstæðunnar árið 2024 nam um 5 ma.kr. og hagnaður eftir afskriftir (EBIT) var um 800 m.kr. Heildarvirði (e. Enterprise value) samstæðunnar í viðskiptunum er um 9,7 ma.kr. Kaupverð alls hlutafjár nemur um 7 ma.kr. og verður 25% kaupverðs greitt með reiðufé og 75% kaupverðs greitt með útgáfu nýrra hluta í Styrkási á genginu 24,5 kr. á hlut. Eftir kaupin munu seljendur Hreinsitækni eignast um 17,5% hlutafjár í Styrkási. Virði hlutafjár sameinaðs félags eftir viðskiptin er um 30 milljarðar króna.
Með kaupum Styrkás á Hreinsitækni verður til fjórða tekjusvið Styrkáss, á sviði umhverfis- og iðnaðarþjónustu. Með kaupunum skapast tækifæri til að styrkja þjónustuframboð Styrkáss samstæðunnar, m.a. til stóriðju og sveitarfélaga auk uppbyggingar nýrra tekjustoða í innviðaþjónustu. Velta Styrkás samstæðunnar fyrstu 9 mánuði ársins nam 47 ma.kr., rekstrarhagnaður eftir afskriftir (EBIT) var 1,9 ma.kr. og hagnaður eftir skatta var 1,3 ma.kr. Vaxtaberandi skuldir Styrkás samstæðunnar að frádregnu handbæru fé í lok september námu um 1 ma.kr. Velta sameinaðs félags á ársgrundvelli verður því tæplega 70 ma.kr. og hagnaður eftir skatta rúmlega 2 ma.kr.
Gert er ráð fyrir því að við uppgjör viðskiptanna verði eignarhlutur SKEL í Styrkás 37,7%. Virði eignarhlutans miðað við gengi Styrkás í viðskiptunum verður 11,2 ma.kr. Samkvæmt hluthafasamningi stærstu hluthafa verða hlutabréf Styrkás skráð á aðalmarkað Kauphallar árið 2027.
Frekari upplýsingar veitir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason
