Samherji eykur hlut sinn í Eimskip
Eimskip hefur móttekið tilkynningu frá Samherja Holding ehf. sem óskað er eftir að birtist í kjölfar flöggunartilkynningar:
„Samherji Holding hefur aukið hlut sinn í Eimskipafélagi Íslands hf. um 3,05% í 30,11% í fyrirtækinu. Samherji mun nú, innan fjögurra vikna, gera öðrum hluthöfum tilboð svo sem lög áskilja.
Tilgangur Samherja með þessum auknu hlutafjárkaupum er fyrst og fremst að sýna þá trú sem Samherji hefur á rekstri Eimskips, þeim árangri sem náðst hefur að undaförnu og á eftir að koma betur í ljós á næstu misserum.
Eimskip er allt að einu í meirihlutaeigu íslenskra lífeyrissjóða sem saman eiga rúmlega helming hlutafjár. Er það skilningur minn að stjórn Eimskips og stjórnendur hafi verið einhuga um þær miklu breytingar sem gerðar hafa verið á rekstrinum. Samherji telur Eimskip vel til þess fallið að vera áfram skráð í kauphöll og vonar að sem flestir hluthafar, stórir og smáir, sjái hag sínum best borgið með því að styðja áfram við þá uppbyggingu og fylgi félaginu um ókomin ár.
F.h. Samherja Holding ehf.
Björgólfur Jóhannsson“