Fly Play hf.: Sætanýting eykst samhliða sólarlandaáherslu
PLAY flutti 124.587 farþega í júlí 2025, samanborið við 187.835 farþega í júlí 2024. Munurinn á farþegafjölda á milli ára skýrist fyrst og fremst af breytingum í nýtingu flugflotans, þar sem færri flugvélar voru í áætlunarflugi vegna leigusamninga við aðra flugrekendur.
Sætanýting var 90,3% í júlí 2025, sem er aukning frá 88,4% í júlí 2024. Þetta endurspeglar talsverða eftirspurn og jafnvægi í leiðakerfinu, sérstaklega í ljósi þess að PLAY hefur lagt áherslu á sólarlandaáfangastaði frá Íslandi. Slíkar leiðir skila jafnan meiri tekjum, en hafa sögulega séð lægri sætanýtingu, sem gerir þessa niðurstöðu eftirtekarverða.
Af þeim farþegum sem flugu með PLAY í júlí 2025 voru 38,6% að fara frá Íslandi, 39,1% að koma til landsins og 22,3% tengifarþegar (VIA).
Flugrekstur gekk vel í júlí, með stundvísihlutfalli upp á 85,6%, sem er lítilsháttar aukning frá 85,4% í júlí 2024.
PLAY leggur áfram áherslu á skilvirkni í rekstri og arðsemi í leiðkerfinu, með tekjuskapandi leigusamningum samhliða öflugri frammistöðu í flugi til vinsælla sólarlandaáfangastað.
Áttundi áfangastaður PLAY á Spáni
Í júlí fór PLAY í sitt fyrsta flug til Valencia á Spáni. Valencia er áttundi áfangastaður PLAY á Spáni en félagið flýgur einnig beint til Alicante, Barcelona, Madríd, Malaga, Tenerife, Fuerteventura og Gran Canaria. Stefna PLAY er að vera leiðandi í flugi til sólarlandaáfangastaða. Þá býður félagið einnig upp á ferðir til fjögurra áfangastaða í Portúgal: Lissabon, Porto, Faro og Madeira.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY:
„PLAY stendur nú í umbreytingarferli þar sem hluti flugflotans er í ACMI-leigu, en engu að síður sjáum við skýr merki um að stefna okkar sé að skila árangri. Sætanýtingin í júlí náði 90,3%, sem er aukning frá síðasta ári og sérstaklega jákvætt í ljósi áherslunnar á sólarlandaáfangastaði sem oftast hafa lægri nýtingu en hærri einingatekjur.
Þessi frammistaða sýnir að eftirspurnin er sterk og stefna okkar rétt. Ég vil hrósa starfsfólki PLAY fyrir frábært starf og fagmennsku, þeirra framlag skilaði okkur 85,6% stundvísi í annasamasta ferðamánuði ársins. Við höldum áfram að leggja áherslu á rekstrarlegan stöðugleika og erum sannfærð um að við séum á réttri leið.“
Viðhengi
