HAGA Hagar HF

Hagar hf.: Hagar ganga frá kaupum á P/F SMS í Færeyjum

Hagar hf.: Hagar ganga frá kaupum á P/F SMS í Færeyjum

Í tilkynningu þann 22. október 2024 var greint frá því að Hagar hf. og eigendur P/F SMS í Færeyjum hefðu undirritað skilyrt samkomulag (e. Head of Terms) um kaup og sölu á öllu hlutafé í SMS. Í dag, þann 27. nóvember 2024, var endanlegur kaupsamningur vegna viðskiptanna undirritaður, en öll skilyrði vegna kaupanna hafa verið uppfyllt, þ.m.t. áreiðanleikakönnun og samþykki eftirlitsaðila í Færeyjum. Markmið kaupanna er að renna frekari stoðum undir og styrkja rekstur Haga á sviði dagvöruverslunar og auka skilvirkni rekstrar og vöruúrval SMS í Færeyjum.

Kaupverð (e. enterprise value) í viðskiptunum nam tæplega 467 mDKK og virði hlutafjár (e. equity value) tæplega 327 mDKK. Kaupverð byggir m.a. á rekstri og áætlunum SMS fyrir rekstrarárið 2024, en tekjur í ár eru áætlaðar um 730 mDKK og hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) um 63 mDKK. Kaupverð byggir einnig á mati á fasteignasafni SMS. Vert er að benda á að áhrifa leigustaðals IFRS 16 gætir ekki í uppgefnum afkomutölum SMS.

Hagar greiða kaupverð með reiðufé að upphæð um 267 mDKK og afhendingu 13.867.495 hluta í Högum að virði 60 mDKK. Meðalgengi á hlutum Haga í viðskiptunum var 85,23 kr., sem byggir að stærstu leyti á dagslokagengi Haga þann 18. október. Endanlegt uppgjör vegna kaupanna gæti breyst lítillega tengt rekstrarafkomu SMS á næstu 2-3 árum. Hagar fjármögnuðu hluta kaupverðs með nýju 200 mDKK láni en til viðbótar yfirtaka Hagar nettó skuldir SMS upp á u.þ.b. 140 mDKK. Skuldsetning Haga eykst sem því nemur.

Miðað er við að uppgjörsdagur vegna kaupanna sé mánudagurinn 2. desember 2024 og mun P/F SMS því verða hluti af samstæðuuppgjöri Haga á síðasta fjórðungi rekstrarársins 2024/2025. Nánar verður gert grein fyrir viðskiptunum og fjármögnun þeirra við birtingu uppgjörs fyrir rekstur Haga á 3. ársfjórðungi rekstrarársins 2024/2025 þann 16. janúar nk.

SMS er leiðandi verslunarfélag í Færeyjum og rekur m.a. átta Bónus lágvöruverðsverslanir víða í Færeyjum, fjórar smærri verslanir í Þórshöfn undir nafninu Mylnan og stórverslunina Miklagarður í Þórshöfn. SMS er einnig umsvifamikið í annarri starfsemi, m.a. rekstri stærstu verslunarmiðstöðvar Færeyja, fjölda veitingastaða, smávöruverslana, brauð- og kökugerðar, kjötvinnslu og líkamsræktarstöðva. Að auki á félagið fjölbreytt fasteignasafn sem telur um 11.000 m2  sem er að mestu nýtt undir eigin starfsemi en að hluta leigt til þriðja aðila. Ríflega 700 manns starfa hjá SMS og dótturfélögum, en forstjóri félagsins er Niels Mortensen. Niels er jafnframt eigandi NM Holding sem átti 50% hlut í SMS fyrir kaup Haga, en 50% voru í eigu félagsins P/F Farcod. Heildartekjur SMS á rekstrarárinu 2023 námu tæplega 700 mDKK og hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam um 56 mDKK.

Kaup Haga á SMS eru í samræmi við markmið Haga og stefnu sem kynnt var fyrr á árinu um að horfa til nýrra tækifæra til að efla starfsemi félagsins enn frekar, bæði tengt kjarnastarfsemi og nýjum tekjustraumum eða stoðum í rekstri. Með kaupunum á SMS munu Hagar auka umsvif í dagvöruverslun en um leið myndast tækifæri til að efla þjónustu beggja félaga og ná fram auknu hagræði í rekstri. Þar er m.a. horft til tækifæra í vöruframboði dagvöruverslana, kostnaðarsamlegð, hagræðingu og fjármögnun.

Fyrrum hluthafar SMS, þ.e. Sp/f NM Holding og P/F Farcod, verða áfram eigendur í gegnum hlutafjáreign sína í Högum, og mun Niels Mortensen áfram leiða starfsemi SMS í Færeyjum. Takmarkanir eru á sölu hluta í eigu Niels til næstu ára.

Hagar og SMS þekkja vel til hvers annars og eiga félögin sameiginlegar rætur í rekstri Bónus verslana í báðum löndum, en fram til ársins 2010 áttu Hagar hlut í SMS. Stefnumótandi áherslur félaganna eru svipaðar þar sem sérstök áhersla er lögð á að bjóða viðskiptavinum ávallt upp á hagkvæma matvörukosti, en um leið að standa fyrir stöðugri framþróun í verslun til að tryggja góða upplifun viðskiptavina.

Afkomuspá Haga fyrir rekstrarárið 2024/25 hefur verið aðlöguð vegna viðskiptanna með SMS og áhrifa út yfirstandandi rekstrarár Haga. Gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) verði á bilinu 14.000-14.500 millj. kr.



Finnur Oddsson, forstjóri Haga:

„Það er mér mikil ánægja að bjóða SMS í Færeyjum velkomin í Haga fjölskylduna. Við höfum á síðustu mánuðum kynnst starfsemi SMS vel, en fyrirtækið er bæði vel rekið og þjónar mikilvægu hlutverki í færeysku samfélagi. Áherslur í starfsemi SMS, m.a. á hagkvæmustu matarkörfuna og góða upplifun í verslunum, ríma vel við leiðarljós okkar hjá Högum. Við erum stolt af því að vera treyst fyrir eignarhaldi á SMS til framtíðar og munum styðja við áframhaldandi þróun og vöxt félagsins, Færeyingum til hagsbóta. SMS mun áfram njóta forystu Niels Mortensen, forstjóra, sem hefur leitt kröftuga uppbyggingu félagsins undanfarna tvo áratugi. Við hlökkum til samstarfs við Niels og framúrskarandi hóp starfsfólks í Færeyjum um að efla góðan rekstur enn frekar, m.a. með því að nýta tækifæri til að auka hagkvæmni, efla vöruval og þjónustu við landsmenn.“

Niels Mortensen, forstjóri SMS:

„Með undirritun kaupsamnings við Haga er mikilvægur og ánægjulegur áfangi í höfn fyrir okkur hjá SMS og fyrir verslun í Færeyjum. Framúrskarandi starfsfólk SMS hefur á undanförnum áratugum byggt upp leiðandi verslunarfyrirtæki sem hefur ávallt haft það að forgrunni að stuðla að bættum lífskjörum Færeyinga með aðgengi að hagkvæmri matvörukörfu, áhugaverðum verslunum og í seinni tíð veitingastöðum. Með aðkomu Haga höfum við ekki aðeins fengið nýjan og traustan eiganda heldur einnig samstarfsaðila sem mun gera okkur kleift að gera jafnvel enn betur en áður. Það er okkur fyrrum eigendum hjartans mál að við tökum áfram þátt í rekstri og eignarhaldi SMS, nú í gegnum hlutafjáreign í Högum. Við hlökkum til að vinna með Högum að vexti og velgengni SMS og treysta um leið viðskipta- og vinasamband á milli Færeyja og Íslands.“



Ráðgjafar Haga í viðskiptunum voru Hamrar Capital Partners, BBA//Fjeldco og KPMG.



Nánari upplýsingar veitir Finnur Oddsson, forstjóri Haga, í síma 530-5500 eða á tölvupósti 



EN
27/11/2024

Underlying

To request access to management, click here to engage with our
partner Phoenix-IR's CorporateAccessNetwork.com

Reports on Hagar HF

 PRESS RELEASE

Hagar hf.: Staðfesting á skýrslum um fjárhagslegar kvaðir skuldabréfaf...

Hagar hf.: Staðfesting á skýrslum um fjárhagslegar kvaðir skuldabréfaflokka Meðfylgjandi má finna staðfestingu KPMG ehf. á skýrslum Haga hf. um fjárhagslegar kvaðir í tengslum við skuldabréfaútgáfu HAGA 021029, HAGA 120926 1 og HAGA161127. Útreikningar og staðfesting fjárhagslegra skilyrða skal fara fram í kjölfar birtingar hálfsárs- og ársreiknings félagsins. Hálfsársuppgjör Haga var birt þann 16. október sl. Yfirferð staðfestingaraðila á fjárhagslegum kvöðum samræmist mati Haga hf. og voru skýrslur félagsins um fjárhagslegar kvaðir því staðfestar. Nánari upplýsingar veitir Guðrún Eva Gu...

 PRESS RELEASE

Hagar hf.: Fjárfestakynning 2F 2025/26

Hagar hf.: Fjárfestakynning 2F 2025/26 Meðfylgjandi er fjárfestakynning Haga á uppgjöri 2. ársfjórðungs 2025/26 sem haldin verður fyrir markaðsaðila og hluthafa kl. 8:30 í dag, föstudaginn 17. október 2025, á Nauthól, Nauthólsvegi 106 í Reykjavík. Á fundinum munu Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum. Fundinum verður einnig streymt og er skráning á hann hér: Viðhengi

 PRESS RELEASE

Hagar hf: Financial results for Q2 2025/26

Hagar hf: Financial results for Q2 2025/26 Strong performance and a new retail center in the Faroe Islands The interim financial statements of Hagar hf. for the second quarter of the 2025/26 financial year were approved by the company’s Board of Directors and CEO at a board meeting held on 16 October 2025. The statements cover the period from 1 March to 31 August 2025. The interim financial statements include the consolidated accounts of the company and its subsidiaries and have been prepared in accordance with International Financial Reporting Standards (IFRS). The statements have been re...

 PRESS RELEASE

Hagar hf: Uppgjör Haga á 2. ársfjórðungi 2025/26

Hagar hf: Uppgjör Haga á 2. ársfjórðungi 2025/26 Sterkur rekstur og nýr verslunarkjarni í Færeyjum Árshlutareikningur Haga hf. fyrir annan ársfjórðung 2025/26 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 16. október 2025. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars til 31. ágúst 2025. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf. Helstu lykiltölur* Vörusala 2F nam 5...

 PRESS RELEASE

Hagar hf.: Breyting á viðskiptavakt

Hagar hf.: Breyting á viðskiptavakt Hagar hf. og Arion banki hf. hafa gert með sér samning um viðskiptavakt á útgefnum hlutabréfum félagsins. Samningi Haga hf. um viðskiptavakt við Kviku banka hf. hefur samhliða verið sagt upp. Arion banki skuldbindur sig til að leggja fram, á hverjum viðskiptadegi Kauphallarinnar, bæði reglubundin og fyrirsjáanleg kaup- og sölutilboð í hlutabréf félagsins í viðskiptakerfi Kauphallarinnar, bæði áður en aðalmarkaður opnar og á meðan viðskipti eiga sér stað. Fjárhæð kaup- og sölutilboða skal vera að lágmarki 200.000 hlutir í félaginu á gengi sem Arion banki...

ResearchPool Subscriptions

Get the most out of your insights

Get in touch