Hagar hf: Uppgjör Haga á 3. ársfjórðungi 2025/26
Sterkur rekstur og afkomuspá hækkuð - viðskiptaþróun styður við vöxt
Árshlutareikningur Haga hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2025/26 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 15. janúar 2026. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars til 30. nóvember 2025. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.
Helstu lykiltölur*
- Vörusala 3F nam 49.068 m.kr. (12,4% vöxtur frá 3F 2024/25). Vörusala 9M nam 149.000 m.kr. (10,9% vöxtur frá 9M 2024/25). [3F 2024/25: 43.659 m.kr., 9M 2024/25: 134.305 m.kr.]
- Framlegð 3F nam 12.335 m.kr. (25,1%) og 36.828 m.kr. (24,7%) fyrir 9M. [3F 2024/25: 9.885 m.kr. (22,6%), 9M 2024/25: 29.596 m.kr. (22,0%)]
- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 3F nam 4.566 m.kr. eða 9,3% af veltu. EBITDA 9M nam 14.097 m.kr. eða 9,5% af veltu. [3F 2024/25: 3.653 m.kr. (8,4%), 9M 2024/25: 10.881 m.kr. (8,1%)]
- Hagnaður 3F nam 1.692 m.kr. eða 3,4% af veltu. Hagnaður 9M nam 5.413 m.kr. eða 3,6% af veltu. [3F 2024/25: 1.391 m.kr. (3,2%), 9M 2024/25: 3.964 m.kr. (3,0%)]
- Heildarafkoma 3F nam 2.264 m.kr. og 5.905 m.kr. fyrir 9M. [3F 2024/25: 1.391 m.kr., 9M 2024/25: 3.964]
- Grunnhagnaður á hlut 3F var 1,55 kr. og 4,94 kr. fyrir 9M. [3F 2024/25: 1,29 kr., 9M 2024/25: 3,66 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 3F var 1,29 kr. og 4,28 kr. fyrir 9M. [3F 2024/25: 1,26kr., 9M 2024/25: 3,59 kr.]
- Eigið fé nam 41.380 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 34,8%. [Árslok 2024/25: 38.489 m.kr. og 36,6%]
- Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2025/26 er hækkuð samhliða uppgjörinu um 600 m.kr. og gerir ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 17.600-18.100 m.kr.
*SMS varð hluti af samstæðu Haga á 4. ársfjórðungi 2024/25 og gætir áhrifa þeirra því ekki í samanburðartölum fyrra árs.
Helstu fréttir af starfsemi
- Þriðji ársfjórðungur gekk vel – góð afkoma af öllum starfsþáttum.
- Framlegðarhlutfall nam 25,1% og hækkaði um 2,5%-stig á fjórðungnum - án áhrifa SMS nam framlegðarhlutfall 24,2%.
- Heimsóknum viðskiptavina í dagvöruverslanir félagsins á Íslandi fjölgaði um tæp 5% á fjórðungnum. Seldum stykkjum fjölgaði einnig eða um tæp 3%.
- Seldum eldsneytislítrum fækkaði um 10% á fjórðungnum – ágæt sala í smásölu en samdráttur í heildarmagni vegna minni sölu í flugvélaeldsneyti og tilfærslu milli tímabila hjá stórum viðskiptavinum.
- Heimsóknum viðskiptavina hjá SMS í Færeyjum fjölgaði um 2,5% á fjórðungnum.
- Um miðjan nóvember opnaði SMS tæplega 3.000 m2 verslunarkjarna í Runavík í Færeyjum sem bætist við safn fasteigna í eigu Haga, sem stendur nú í um 65.000 m2.
- Á fjórðungnum var lokið við undirbúning fyrir nýtt vildarkerfi Haga, Takk, sem gefið var út 14. janúar – Takk mun bæta kjör, þjónustu og upplifun viðskiptavina.
- Hagar hafa stofnað nýja miðlæga rekstrareiningu, Hagar Miðlar, sem mun nýta sterka innviði samstæðunnar til að miðla upplýsingum frá þriðja aðila til viðskiptavina.
- Hagkaup hóf samstarf við Wolt um pöntun og heimsendingar á matvöru á innan við klukkustund á Reykjavíkursvæði og Akureyri.
Finnur Oddsson, forstjóri:
Starfsemi Haga gengur vel á öllum sviðum, eins og endurspeglast í niðurstöðum þriðja ársfjórðungs rekstrarársins 2025/26 sem voru heldur umfram áætlanir. Vörusala samstæðu nam 49,1 ma. kr. og jókst um 12,4% og afkoma styrktist á fjórðungnum; EBITDA nam 4.566 m.kr. og hagnaður 1.692 m.kr., sem er nokkur aukning frá fyrra ári. Samanburður milli tímabila litast af því að SMS í Færeyjum er nú hluti af samstæðu Haga en var ekki á fyrra ári.
Tekjur af verslunum og vöruhúsum á Íslandi voru ríflega 33,7 ma. kr., sem er tæplega 8% aukning í samanburði við fyrra ár, og EBITDA nam um 3 ma. kr. og styrktist sömuleiðis. Viðskiptavinum dagvöruverslana og seldum stykkjum hélt áfram að fjölga. Bónus er að þessu leyti fremst í flokki, með kröftuga söluaukningu sem knúin er af fyrrgreindri fjölgun seldra stykkja og viðskiptavina, sem sækja í hagkvæm og þægileg matvörukaup og aukið úrval af ávöxtum, grænmeti, heilsuvöru og tilbúnum og tímasparandi réttum. Verslunum Bónus sem bjóða upp á Gripið & Greitt sjálfskönnun fjölgar og „Ódýrast vikunnar í Bónus“ stækkar áfram og sparar viðskiptavinum tugi milljóna á mánuði. Sem fyrr er mikil áhersla á að halda aftur af verðhækkunum en um helmingur vöruvals í verslunum hefur staðið í stað eða lækkað í verði frá sama tíma í fyrra. Hjá Hagkaup jukust umsvif sömuleiðis, en fjórðungurinn er jafnan annasamur enda nóvember orðinn einn stærsti verslunarmánuður ársins. Þemadagar, m.a. tengdir heilsu og ítalskri matargerð, voru vel sóttir og netverslun er áfram í mikilli aukningu, einkum í nóvember með fjölda tilboðsdaga. Ný þjónusta Hagkaups í samstarfi við Wolt hefur fengið góðar viðtökur, en þar fá viðskiptavinir aðgang að miklu vöruúrvali Hagkaups í netverslun, sent heim innan klukkustundar. Rekstur Aðfanga og Banana gekk vel, í samræmi við aukin umsvif, og sömuleiðis Zara, Eldum rétt og Stórkaup.
Rekstur Olís gekk vel, þrátt fyrir að tekjur, sem námu 11,8 ma. kr., hafi dregist saman. Seldum lítrum til stórnotenda fækkaði, einkum vegna minni sölu flugvélaeldsneytis og tilfærslu magns á milli tímabila. Afkoma Olís var svipuð og á fyrra ári, en sterkan rekstur má sem fyrr rekja til hagræðingar í rekstri á síðustu misserum og aukinnar almennrar vörusölu, veitinga og nýrra þjónustuþátta á borð við heimsendingar með Wolt og vel sóttra bílaþvottastöðva Glans, en ný slík stöð opnaði í Bæjarlind í Kópavogi í desember.
Starfsemi SMS í Færeyjum gengur vel og er afkoma lítillega umfram áætlanir. Nýr verslunarkjarni SMS var opnaður í nóvember þar sem félagið rekur tvær verslanir og veitingastað og leigir auk þess aðstöðu til þriðja aðila. Fasteignin, sem er í Runavík, bætist við fasteignasafn Haga sem nemur nú um 65.000 m2. Tekjur SMS á fjórðungnum námu ríflega 3,7 ma. kr. og eru horfur í rekstri almennt góðar.
Á síðustu misserum hefur verið lagður bæði tækni- og þekkingarlegur grunnur til að byggja nýjar lausnir sem að efla þjónustu við viðskiptavini og/eða skapa nýjar tekjustoðir í starfsemi Haga. Meðal þessara verkefna er vildarkerfi Haga sem formlega var ýtt af stokkunum þann 14. janúar undir merkjum Takk. Takk er vildarkerfi í nýju appi, sem býður vildarviðskiptavinum upp á betri kjör, áhugaverð fríðindi og nýja þjónustu. Viðskiptavinir ávinna sér Takk krónur þegar þeir versla valdar vörur hjá Bónus, Hagkaup og Eldum rétt og geta nýtt þær aftur í verslunum Bónus og Hagkaups um allt land. Að auki veitir Takk appið aðgang að fjölbreyttum viðburðum, leikjum, nýrri þjónustu og áhugaverðum tilboðum hjá samstarfsaðilum eins og Glans, Grill 66 og Lemon. Í framhaldi verður Takk nýtt til að byggja á enn frekari þjónustu fyrir viðskiptavini Haga.
Sem hluti af viðskiptaþróun innan samstæðunnar hefur ný rekstrareining verið stofnuð, Hagar Miðlar, en einingin hefur það hlutverk að nýta fjölbreytta innviði félagsins til að miðla auglýsingum, upplýsingum og skemmtilegu efni frá þriðja aðila til viðskiptavina félagsins, bæði í verslunum og í netheimum. Um er að ræða nýjan rekstur hjá Högum en samskonar starfsemi hefur verið í miklum vexti í smásölu á alþjóðavísu, enda er miðlun efnis á sölustað bæði markvissari og áhrifaríkari en í hefðbundnum auglýsingamiðlum. Með Hagar Miðlar verður til nýr tekjustraumur byggður á vannýttum innviðum Haga, en samhliða því er þjónusta við viðskiptavini aukin með markvissri upplýsingamiðlun og bættri upplifun.
Framkvæmdir eru hafnar við standsetningu á aðstöðu fyrir Eldum rétt og Ferskar kjötvörur að Álfabakka 2 og er áætlað að starfsemi verði flutt þangað á haustmánuðum 2026. Ný aðstaða býður upp á aukið hagræði í framleiðsluferlum og fjölbreytt tækifæri til útvíkkunar á vöruframboði félaganna.
Starfsemi Haga gengur vel og við erum ánægð með bæði rekstur og nýjar áherslur sem eru vísir að framtíðar tekjustraumum. Sem fyrr er það frábær hópur starfsfólks Haga og dótturfélaga sem á heiðurinn af góðum árangri og núverandi stöðu félagsins, sterkum fjárhag og því að afkoma af rekstri helstu eininga er heldur umfram áætlanir. Vegna þessa og í framhaldi af kröftugri verslun í desember mánuði hefur spá um rekstrarniðurstöðu verið uppfærð og er gert ráð fyrir að EBITDA ársins verði á bilinu 17.600 – 18.100 m.kr. Horfur í rekstri Haga eru góðar.
Kynningarfundur föstudaginn 16. janúar 2026
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á Nauthól, Nauthólsvegi 106 í Reykjavík, föstudaginn 16. janúar kl. 08:30. Þar munu Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum.
Fundinum verður auk þess streymt og er skráning á streymið hér: . Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á netfangið og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar.
Kynningargögn verða aðgengileg á heimasíðu Haga, , við upphaf fundar.
Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (), og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (), í síma 530-5500 eða tölvupósti.
Viðhengi
