Festi hf.: Óðinn Árnason ráðinn framkvæmdastjóri Festi fasteigna ehf.
Óðinn Árnason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Festi fasteigna og tekur um leið sæti í framkvæmdastjórn Festi hf. Hann mun hefja störf 1. september nk.
Óðinn hefur starfað sem sjóðstjóri hjá Stefni hf. frá 2017 en lét af þeim störfum í dag. Hann var áður sjóðstjóri hjá Stapa lífeyrissjóði á árunum 2012-2017. Þar áður vann hann við fasteigna- og markaðsgreiningar hjá Kaupthing Sverige AB árin 2011-2012, var sjóðstjóri hjá Íslenskum verðbréfum árin 2009-2010 og miðlari hjá Sparisjóðabankanum á árunum 2007-2009. Óðinn er með meistaragráðu í fasteignafjárfestingum, greiningum og umsýslu fasteigna frá Kongunglega Tækniháskólanum í Svíþjóð. Þá er Óðinn með próf í sjálfbærum fjárfestingum frá PRI Academy og í verðbréfaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík.
Festi fasteignir ehf. er fasteignafélag Festi, sem er móðurfélag N1, Krónunnar, ELKO og Bakkans Vöruhótels. Fjöldi fasteigna í eigu samstæðunnar er 87 og er stærð þeirra samtals um 95 þúsund fermetrar.
„Festi fasteignir er lykilstoð innan samstæðunnar og því kærkomið að fá jafn sterkan og þaulreyndan mann og Óðinn til að leiða félagið. Við horfum til frekari þróunar á fasteignarekstri samstæðunnar með það fyrir augum að nýta enn betur tækifærin til verðmætasköpunar í gegnum þær eignir og lóðir sem heyra undir félagið. Við hlökkum til samstarfsins“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi.
