Nova Klúbburinn hf.: Sylvía tekin við sem forstjóri Nova
Sylvía Kristín Ólafsdóttir hefur tekið við störfum sem forstjóri Nova frá og með deginum í dag. Sylvía tekur við af Margréti Tryggvadóttur.
Sylvía kemur til Nova frá Icelandair þar sem hún hefur starfað síðustu ár sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. Áður hefur hún m.a. starfað sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Origo og hjá Amazon við rekstur og áætlanagerð, og síðar Kindle deild fyrirtækisins þar sem hún sá m.a. um viðskiptagreind og vöruþróun, auk þess að leiða greiningar- og stefnumótunarvinnu.
„Það er mikill heiður að taka við fyrirtæki í fremstu röð. Nova er ekki aðeins fyrirmynd og kjölfesta á íslenskum fjarskiptamarkaði – félagið er sterkt, traust og metnaðarfullt með öfluga innviði, framsækna hugsun og einstaklega öflugt starfsfólk.
Við stöndum á sterkum grunni fyrir næsta kafla. Við ætlum að halda áfram að vaxa og nýta kraftinn sem þegar er til staðar og skapa ný tækifæri. Framundan eru verulega spennandi verkefni og ég hlakka til að fylgja starfsfólkinu, viðskiptavinum og hluthöfum, inn í framtíðina.“ segir Sylvía.
Margrét Tryggvadóttir sem verið hefur í lykilhlutverki hjá Nova frá upphafi og skemmtana- og forstjóri frá árinu 2018 tilkynnti fyrr á árinu að hún hygðist láta af störfum en mun áfram sinna ráðgjöf fyrir félagið eftir að hún lætur af störfum.
„Þótt ótrúlegt megi kannski virðast þá er það tilhlökkun og gleði sem er mér efst í huga við þessi tímamót. Tíminn hjá Nova hefur verið góður og það hafa verið forréttindi að fá að taka þátt í þeirri vegferð að gera Nova að því sem það er í dag. Ég mun sakna þess að hitta ekki Nova liðið daglega og upplifa þá gleði sem því fylgir. En ég veit að það fer ekki neitt og það sem situr eftir er fyrst og fremst stolt yfir því sem við höfum byggt upp saman. Það er góð tilfinning að vita af félaginu í góðum höndum hjá Sylvíu og öllu því frábæra fólki sem er í Nova liðinu. Félagið er, hvernig sem á er litið, á frábærum stað til að takast á við nýjar áskoranir. Nú fer ég af dansgólfinu og fylgist með af hliðarlínunni, Sylvía tekur við diskókúlunni og ég trúi að framtíðin feli í sér áframhaldandi gleði og enn stærri sigra.“
Viðhengi
