Síminn hf. – Samkeppniseftirlitið birtir Símanum andmælaskjal vegna enska boltans
Síminn greindi frá því í árshlutareikningi vegna fyrri hluta 2019 að Samkeppniseftirlitið hefði í júlí sl. birti frummat sitt þar sem fram komi að fyrirkomulag á sölu Símans á áskriftum vegna enska boltans kynni að fara í bága við ákvæði samkeppnislaga og afleiddar ákvarðanir sem Samkeppniseftirlitið hefur tekið.
Því telur Síminn rétt að upplýsa að í dag birti Samkeppniseftirlitið Símanum andmælaskjal sem áframhaldandi lið í rannsókn stofnunarinnar, þar sem félaginu er gefinn kostur á að koma á framfæri skýringum og gögnum vegna málsins. Í andmælaskjalinu kemur fram að stofnunin telur að Síminn kunni að hafa brotið gegn 3. gr. ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 20/2015 og gegn 19. gr. ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 6/2015 sem báðar fela í sér bann við samtvinnun á tilteknum þjónustuþáttum. Hins vegar er ekki tekin afstaða í skjalinu til þess hvort 11. gr. samkeppnislaga kunni að hafa verið brotin.
Samkeppniseftirlitið telur það koma til skoðunar að beita íþyngjandi viðurlögum eða fyrirmælum á grundvelli 16. gr. samkeppnislaga, án þess þó að veita nánari upplýsingar þar að lútandi.
Skjalið felur ekki í sér bindandi stjórnvaldsákvörðun heldur er ritað í þeim tilgangi að Síminn geti nýtt andmælarétt sinn skv. stjórnsýslulögum og að málið verði að fullu rannsakað áður en ákvörðun verður tekin.
Félagið er enn þeirrar skoðunar að fyrirkomulag um sölu á þjónustu félagsins sé fyllilega í samræmi við samkeppnislög og þær ákvarðanir sem félagið hefur gengist undir á grundvelli samkeppnislaga, eins og tiltekið var í árshlutauppgjöri félagsins.