Síminn hf. - Síminn kaupir Greiðslumiðlun Íslands
Síminn hf. hefur undirritað samning um kaup á öllu hlutafé í Greiðslumiðlun Íslands ehf. („GMÍ“). Með kaupunum styrkir Síminn starfsemi sína enn frekar á sviði fjártækni, sem er ört vaxandi stoð í rekstrinum. Heildarvirði (enterprise value) GMÍ í viðskiptunum nemur 3.500 milljónum króna. Kaupin verða fjármögnuð með handbæru fé en endanlegt kaupverð til greiðslu tekur meðal annars mið af stöðu nettó vaxtaberandi skulda og veltufjármuna á viðmiðunardegi uppgjörs. Viðskiptin eru háð hefðbundnum fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Verði af viðskiptunum er áætlað að á ársgrundvelli aukist tekjur Símans um ríflega 2.600 milljónir króna, EBITDA um yfir 500 milljónir króna og lánasafn félagsins stækki um að lágmarki 1.000 milljónir króna.
Seljendur GMÍ eru félög sem eru að mestu í eigu Alfa Framtaks og Landsbankinn hf.
Samhliða frágangi viðskiptanna mun Síminn áfram vinna að breyttu skipulagi samstæðunnar, m.a. með því að færa fjarskipta- og miðlarekstur félagsins í nýtt dótturfélag. Markmið breytinganna er að búa samstæðuna undir frekari vöxt.
GMÍ er öflug samstæða á sviði kröfuþjónustu, innheimtu og greiðsluþjónustu. Starfsemin er rótgróin á markaði og býr að traustum tæknilegum grunni, reynslumiklu starfsfólki og þjónustar um 1.600 viðskiptavini á fyrirtækjamarkaði auk fjölmargra viðskiptavina Pei á lánamarkaði. Starfsmenn eru um 75 talsins.
Síminn er rótgróið fjarskipta- og þjónustufyrirtæki sem hefur verið brautryðjandi á Íslandi í tæp 120 ár. Síminn býður framúrskarandi stafrænar lausnir fyrir fólk og fyrirtæki á sviði fjarskipta, sjónvarpsþjónustu, auglýsingamiðlunar og fjártækni, þar sem umtalsverður vöxtur hefur verið síðustu misseri. Með kaupunum er sú starfsemi styrkt enn frekar.
María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans:
„Með kaupunum nýtum við styrkleika félaganna í vöruframboði, innviðum og viðskiptasamböndum til að skapa enn meira virði fyrir viðskiptavini okkar og hluthafa. GMÍ býr að traustum vörumerkjum, rótgrónum viðskiptasamböndum og öflugu starfsfólki sem hefur verið í stöðugri nýsköpun síðustu misseri, líkt og við þekkjum vel hjá Símanum.
Árangur GMÍ við að þróa stafrænar lausnir og þjónustu fyrir fjármálaferla fyrirtækja á margt sammerkt með þeirri vegferð sem fjártækniarmur Símans hefur verið á síðustu ár. Þá búa bæði félög yfir stafrænum greiðslu- og lánalausnum í fremstu röð.
Næstu misseri ætlum við að nýta sterka fjárhagsstöðu Símans til að efla starfsemina enn frekar, bæði með innri og ytri vexti. Kaupin eru mikilvægt skref á þeirri leið og sýna í verki trú okkar á áframhaldandi sókn á sviði fjártækni.“
Brynja Baldursdóttir, forstjóri Greiðslumiðlunar Íslands:
„Við hlökkum til að ganga til liðs við samstæðu Símans og erum sannfærð um að það muni skila viðskiptavinum beggja félaga miklum ávinningi. Greiðslumiðlun Íslands er öflugt fjártæknifyrirtæki sem hefur byggt upp sterka innviði og víðtæka þekkingu til að efla nýsköpun og vöruþróun í greininni. Viðskiptavinir okkar hafa þegar notið góðs af nýjungum sem kynntar hafa verið á síðustu mánuðum, og við ætlum að halda áfram af krafti á þeirri vegferð.
Síminn hefur á sama tíma þróað spennandi fjártæknilausnir og sýnt mikinn metnað til vaxtar á því sviði. Við sjáum fram á fjölmörg tækifæri beggja fyrirtækja til að sækja fram og styðja við áframhaldandi framþróun á íslenskum fjártæknimarkaði.”
LOGOS lögmannsþjónusta veitti kaupanda lögfræðiráðgjöf í viðskiptunum. Ráðgjafar seljenda voru ARMA Advisory, fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og BBA Fjeldco.
Innherjaupplýsingar
Upplýsingarnar í þessari tilkynningu töldust vera innherjaupplýsingar fyrir birtingu þeirra, eins og skilgreint er í 7. gr. reglugerðar Evrópusambandsins um markaðssvik nr. 596/2014, og eru birtar í samræmi við skyldur Símans samkvæmt 17. gr. þeirrar reglugerðar. Við birtingu þessarar tilkynningar teljast þessar innherjaupplýsingar nú vera opinberar.
