Sýn hf.: Afkoma Sýnar hf. á öðrum ársfjórðungi ársins 2025
Rekstur í takt við áætlanir
Árshlutareikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2025 var samþykktur á stjórnarfundi þann 25. ágúst 2025.
Heildartekjur á öðrum ársfjórðungi (2F) 2025 námu 5.357 m.kr. samanborið við 5.286 m.kr. á sama tímabili 2024 og jukust um 1,4%. Tekjur af fjölmiðlun, interneti og farsímaþjónustu (án IoT) jukust um 3,4% á milli tímabila.
EBITDAaL nam 716 m.kr. á 2F, samanborið við 733 m.kr. á sama tímabili í fyrra. Tap eftir skatta nam 174 m. kr. á 2F 2025 samanborið við 186 m.kr. tap á sama tímabili 2024.
EBITDAaL að frádregnum fjárfestingum nam 92 m.kr. á ársfjórðungnum samanborið við -432 m.kr. á sama tímabili í fyrra.
Rekstrarhagnaður (EBIT) á 2F nam 66 m.kr., samanborið við 63 m.kr. á fyrra ári.
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri:
„Árið hefur verið viðburðarríkt hjá Sýn og markað af tveimur stórum áföngum sem styrkja félagið bæði gagnvart viðskiptavinum og fjárfestum. Við höfum lokið endurmörkun vörumerkja félagsins undir einu merki og kynnt nýja pakka sem sameina fjarskipti og fjölmiðla á skýrari hátt en áður. Þessum breytingum hefur verið vel tekið og þær marka endapunkt á yfir 12 mánaða vinnu og undirbúningi sem fjöldi starfsfólks hefur komið að, með það að markmiði að gera vöruframboðið einfaldara og skýrara fyrir viðskiptavini.
Á sama tíma tókum við á móti Enska boltanum í sumar og hefur sú yfirfærsla gengið einstaklega vel. Við höfum séð gríðarlega góðar viðtökur viðskiptavina og styrk í dreifileiðum okkar. Við vinnum áfram að því að bæta upplifun viðskiptavina sem nýta sér öpp í snjallsjónvörpum svo þjónustan verði sem best. Sjónvarpsþjónusta Sýnar er öllum landsmönnum aðgengileg um internetið, óháð fjarskiptafyrirtæki.
Að okkar mati gengur ákvörðun Fjarskiptastofu gegn grundvallarreglum um samkeppni og jafnræði á markaði. Við teljum að með ákvörðuninni sé verið að draga úr hvata til þróunar á nýjum og hagkvæmari lausnum fyrir neytendur.
Góðum árangri hefur verið náð í því að auka hagræði í rekstri og fjárfestingar eru markvissari en áður. Þetta hefur skilað sér í bættum rekstrargrunni og meiri sveigjanleika til að halda áfram að þróa vörur og þjónustu.
Heildarniðurstaðan eftir fyrstu sex mánuði ársins er því jákvæð: rekstur er í takt við áætlanir, kjarnatekjur sýna vöxt og félagið stendur traustum fótum. Með skýrri sýn, einfaldara vöruframboði, sterku vörumerki, Enska boltanum og áframhaldandi skilvirkni í rekstri erum við vel í stakk búin til að skapa viðskiptavinum betri upplifun og hluthöfum virði til framtíðar.“
Fjárfestakynning verður birt fyrir fjárfestafund sem haldinn verður þriðjudaginn 26. ágúst kl. 08:30.
Viðhengi
