Síldarvinnslan: Fyrsti ársfjórðungur 2025
- Lítil loðnuvertíð, 3000 tonn af afurðum fryst á háum verðum.
- Væntingar voru um stærri vertíð, niðurstaðan vonbrigði.
- Kolmunnaveiðar rólegri en árið 2024.
- Frystitogarinn Blængur fiskað vel og verð góð.
- Ísfiskskipin fiskuðu ágætlega á fjórðungnum. Þó meira fyrir veiðunum haft, bæði á þorski og ýsu.
- Landvinnsla í Grindavík gengið að mestu án raskana.
- Mikill framleiðsluaukning hjá Arctic Fish en þrátt fyrir það lækkuðu tekjur og afkoma versnaði vegna lakari afurðaverða.
Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins
- Hagnaður tímabilsins nam 7,3 m USD.
- Rekstrartekjur tímabilsins námu 82,6 m USD.
- EBITDA var 22,2 m USD eða 26,8% á tímabilinu.
- Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 1.047 m USD og eiginfjárhlutfall var 62,0%.
Rekstur
Tekjur á fyrsta ársfjórðungi námu 82,6 m USD samanborið við 81,4 m USD á sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur jukust um 1,2 m USD á milli tímabila eða um 1,6%.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á tímabilinu var 22,2 m USD eða 26,8% af rekstrartekjum, en var 19,2 m USD og 23,6% af rekstrartekjum á sama tímabili 2024. Aukining á milli tímabila nemur því 3,04 m USD.
Hagnaður fyrir tekjuskatt var 10,4 m USD samanborið við 14,0 m USD á fyrsta fjórðungi 2024. Tekjuskattur var 3,1 m USD og hagnaður fyrsta ársfjórðungs 2025 nam því 7,3 m USD samanborið við 11,3 m USD hagnað fyrsta ársfjórðung 2024.
Efnahagur
Heildareignir námu 1.046,5 m USD í lok mars 2025. Þar af voru fastafjármunir 864,7 m USD og veltufjármunir 181,8 m USD. Í lok árs 2024 námu heildareignir 1.059,6 m USD og þar af voru fastafjármunir 853,6 m USD og veltufjármunir 206,0 m USD. Fastafjármunir jukust því um 11,1 m USD en þýðingarmunur og afskriftir skýra það að mestu leyti. Veltufjármunir minnkuðu um 24,2 m USD, sem skýrist af lækkun á handbæru fé og birgðum.
Fjárhagsstaða félagsins er áfram sterk og nam eigið fé 648,6 m USD. Eiginfjárhlutfall var 62,0% í lok tímabilsins en það var 60,7% í lok árs 2024.
Heildarskuldir og -skuldbindingar félagsins voru 397,9 m USD í lok tímabilsins og lækkuðu um 18,6 m USD frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 245,5 m USD í lok tímabilsins og hafa lækkað um 29,0 m USD frá áramótum.
Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri nam 29,6 m USD á fyrsta ársfjórðungi 2025 en var 23,1 m USD á sama tímabili 2024. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 0,3 m USD og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 52,1 m USD. Handbært fé í lok tímabilsins nam 79,5 m USD.
Meginniðurstöður í íslenskum krónum á fyrsta ársfjórðungi 2025
Séu niðurstöður rekstrarreiknings tímabilsins reiknaðar í íslenskar krónur á meðalgengi þess (1 USD=138,45 kr.) voru rekstrartekjur 11,4 milljarðar króna. EBITDA nam 3,1 milljarði króna og hagnaður tímabilsins var 1,0 milljarður króna. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskar krónur á gengi 31. mars 2025 (1 USD=131,95 kr.) voru eignir samtals 138,1 milljarður króna, skuldir 52,5 milljarðar króna og eigið fé 85,6 milljarðar króna.
Samþykkt árshlutareiknings
Árshlutauppgjör fyrsta ársfjórðungs 2025 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar hf. hinn 22. maí 2025. Ársreikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).
Kynningarfundur 22. maí 2025
Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi fimmtudaginn 22. maí næstkomandi klukkan 16:00. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar . Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á YouTube. Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið og reynt verður að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.
Frá forstjóra
Á fyrsta ársfjórðungi 2025 stóð Síldarvinnslan frammi fyrir þeirri staðreynd að loðnuvertíðin varð sú minnsta í sögunni. Það eru veruleg vonbrigði í ljósi þeirra væntinga sem uppi höfðu verið, sérstaklega í kjölfar loðnulauss árs 2024. Alls bárust um 3.000 tonn af loðnu til fiskiðjuversins, en eftirspurn eftir afurðum, bæði í Asíu og Austur-Evrópu, var mjög mikil og afurðaverð í sögulegu hámarki. Ljóst er að stöðug framleiðsla loðnuafurða er nauðsynleg til að viðhalda markaðsstöðu og þjónustu við neytendur, en ítrekaður afurðarskortur veldur því að hegðun neytenda breytist og ógnar það markaðnum til lengri tíma.
Loðnuvertíð skiptir félagið verulegu máli. Framleiðsluverðmæti loðnuvertíðarinnar 2023 hjá Síldarvinnslunni nam um 70 milljónum bandaríkjadala. Fyrirtækið hefur engin raunhæf úrræði til að verjast þeirri stöðu sem skapast þegar veiðiheimildum er ekki úthlutað.
Veiðar á kolmunna í færeysku lögsögunni í janúar og febrúar gengu hægar en á sama tíma árið á undan, bæði vegna erfiðra veðurskilyrða og fiskgengdar. Hins vegar héldu skipin á miðin við Rockall í mars þar sem veiðin gekk vel.
Frystitogarinn Blængur veiddi um 2.000 tonn á fjórðungnum, sem telst góður árangur. Markaðsaðstæður í sjófrystingu eru hagstæðar um þessar mundir og mikil eftirspurn er eftir þorsk-, ýsu- og grálúðuafurðum. Afurðaverð eru há. Ísfiskskip samstæðunnar lönduðu einnig góðum afla á fjórðungnum, þó vertíðin hafi hafist seinna en venjulega og ekki verið kraftur í veiðinni fyrr en undir lok mars.
Eftir áramót hefur starfsemi landvinnslunnar í Grindavík færst í eðlilegra horf. Vel hefur gengið þrátt fyrir tímabundnar raskanir af völdum jarðhræringa. Eldgos, sem hófst 1. apríl, stóð í afar skamman tíma og fór betur en á horfðist. Óvissa ríkir þó áfram vegna viðvarandi landriss. Mikil eftirspurn er eftir bæði ferskum, frosnum og söltuðum afurðum og markaðir halda áfram að sýna sterk viðbrögð við gæðum íslenskra sjávarafurða.
Á þessum tímapunkti ársins ríkir ætíð eftirvænting eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna næsta fiskveiðiárs. Við gerum okkur vonir um jákvæðar fréttir um stærstu nytjastofnana, einkum íslensku síldina, sem hefur styrkt sig á undanförnum árum. Þá er einnig vonast til þess að ráðgjöf vegna þorskveiða verði sambærileg þeirri sem var síðastliðið ár.
Hlutdeildarfélag okkar, Arctic Fish, slátraði alls 3.140 tonnum af laxi á fjórðungnum, sem er 24% aukning frá sama tímabili fyrra árs. Þrátt fyrir aukið framleiðslumagn reyndust markaðsaðstæður krefjandi, sem hafði neikvæð áhrif á tekjur og afkomu. Félagið skilaði tapi upp á 2,1 milljarð króna á fjórðungnum. Það er umhugsunarvert hve mikill skattur er lagður á fiskeldið óháð afkomu, enda er hann tengdur við tekjur en óháður fjárbindingu og öðru.
Töluverð umræða hefur átt sér stað í kjölfar þess að ríkisstjórnin kynnti með skömmum fyrirvara fyrirhugaða tvöföldun veiðigjalda rétt fyrir páska. Umræðan hefur því miður að mestu snúist um form og minna um innihald, og stjórnvöld hafa forðast að ræða raunverulegu áhrif sem frumvarpið mun hafa á sjávarútveginn. Á dögunum birti ég minnisblað þar sem gerð er grein fyrir áhrifum frumvarpsins á Síldarvinnsluna. Niðurstaðan er skýr: Frumvarpið vinnur gegn samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs.
Fjölmargar áskoranir blasa nú við stjórnendum félagsins. Alþjóðleg óvissa hefur aukist og getur haft áhrif á markaði með litlum fyrirvara. Á sama tíma boða stjórnvöld aukna skattheimtu í formi veiðigjalda sem jafnframt ógnar samþættingu veiða og vinnslu sem er meginstoð þeirrar virðisaukningar og arðsemi sem greinin hefur byggst upp á.
Yfirlýsingar ráðamanna um að tvöföldun veiðigjalda hafi engin áhrif opinbera í versta falli hversu ótengdir þeir eru gangverki atvinnulífsins. Sjávarútvegur hefur fjárfest mikið á undanförnum árum og hafa fjárfestingarnar að miklu leyti verið fjármagnaðar með eigin fé, þ.e. félögin hafa nýtt stóran hluta af hagnaði sínum til að endurnýja skipastól og vinnslutækni svo samkeppnishæfni haldist á mörkuðum. Ef ríkið tekur 1.600 milljónir króna í viðbót af hagnaði félagsins þá einfaldlega dregst getan til fjárfestinga og framþróunar saman til samræmis við það.
Síldarvinnslan hf. hefur sett frekari fjárfestingar á ís og munu stjórnendur rýna allan rekstur með það í huga að finna út hvar megi spara og gera betur. Slíkar aðstæður kalla á aukið kostnaðaraðhald, hagræðingu og krefjandi ákvarðanatöku.
Auk þess að bitna á fyrirtækinu sjálfu, er ljóst að í Fjarðabyggð og nærumhverfi félagsins, mun þetta bitna á verslun, þjónustu og verktakafyrirtækjum. Þannig má nefna að á síðustu þremur árum höfum við verslað við fyrirtæki í Fjarðabyggð fyrir 9,4 milljarða. Ljóst er að draga þarf saman seglin þegar ríkið mun taka 1.600 milljónir króna til viðbótar af væntum hagnaði félagsins árlega.
Framundan er makrílveiði sem við stefnum á að hefja í lok júní og mun síldarvertíð fylgja í kjölfarið. Makrílstofninn hefur dregist saman síðustu fimm ár og veiðimynstrið tekið breytingum. Enn er þó bjart yfir mörkuðum fyrir makríl og síld. Á sumrin hægist á bolfiskhlutanum hjá okkur og er tíminn nýttur í sumarfrí og slipptöku hjá skipum.
Fjárhagsdagatal
2. ársfjórðungur 2025 – 28. ágúst 2025
3. ársfjórðungur 2025 – 27. nóvember 2025
Ársuppgjör 2025 – 5. mars 2026
Nánari upplýsingar
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri
Viðhengi
