Eik fasteignafélag hf.: Útgáfuáætlun ársins 2026
Eik fasteignafélag hf. hyggst á árinu 2026 fjármagna starfsemi sína og mæta endurfjármögnunarþörf vegna skulda sem falla í gjalddaga með útgáfu skuldabréfa og annarri lántöku eftir því sem markaðsaðstæður leyfa hverju sinni.
Lántakan verður meðal annars framkvæmd með útgáfu nýrra skuldabréfaflokka, skiptiútboðum eða með öðrum þeim hætti sem talinn er hagkvæmur miðað við markaðsaðstæður á hverjum tíma.
Markmið Eikar er að vera reglubundinn útgefandi á skuldabréfamarkaði, með megin áherslu á löng verðtryggð skuldabréf í bland við aðrar tegundir bréfa. Með reglubundnum útgáfum leitast félagið við að veita fjárfestum aukinn fyrirsjáanleika og ná meðaltali langra raunvaxta yfir hagsveiflur með meðalkostnaðaraðferð (e. cost-averaging approach). Sú nálgun styður jafnframt vel við langan líftíma fasteignasafns félagsins.
Í fyrirhuguðum skuldabréfaútboðum hyggst félagið, í því skyni að ná framangreindum markmiðum, meðal annars gefa út langt óuppgreiðanlegt verðtryggt jafngreiðslubréf til allt að 40 ára, auk millilangs verðtryggðs skuldabréfs. Þá telur félagið jafnframt að til staðar sé eftirspurn á markaði eftir styttri óverðtryggðum skuldabréfum.
Útboðstímar 2026
Félagið hyggst halda regluleg útboð skuldabréfa á árinu 2026 að teknu tilliti til helgidaga og hefðbundinnar árstíðarsveiflu á fjármálamörkuðum.
Fyrirhuguð útboðstímabil:
- Vika 4-5
- Vika 8-9
- Vika 12-13
- Vika 17-18
- Vika 22-23
- Engin útboð í júlí og ágúst
- Vika 36-37
- Vika 42-43
- Vika 48-49
Félagið áskilur sér rétt til að bæta við útboðum, breyta stærð þeirra eða fella þau niður, í samræmi við markaðsaðstæður og fjárþörf hverju sinni.
Stefnt er að útboð verði boðuð með u.þ.b. einnar viku fyrirvara.
Aðrir fjármögnunarkostir
Félagið mun áfram kanna aðrar fjármögnunarleiðir, þar á meðal bankalán, lánalínur og aðrar almennar lántökuleiðir sem henta starfsemi þess hverju sinni.
Nánari upplýsingar veitir Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármála og UT í síma 820-8980 eða á .
