Festi hf.: Eva Guðrún Torfadóttir nýr framkvæmdastjóri Bakkans vöruhótels ehf.
Eva Guðrún Torfadóttir, verkfræðingur og fyrrum ráðgjafi hjá Implement Consulting Group í Danmörku, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Bakkans og kemur inn í framkvæmdastjórn Festi hf. Eva Guðrún hefur störf í byrjun næsta árs – en hún er sem stendur í fæðingarorlofi.
Eva Guðrún hefur frá árinu 2016 starfað sem umbóta- og rekstrarráðgjafi hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Implement Consulting Group í Kaupmannahöfn. Mörg hennar verkefna þar hafa snúið að endurbótum á aðfangakeðjum, m.a. endurskipulagningu vöruhúsa og þróun innkaupaferla. Áður starfaði hún sem innkaupa og birgðastjóri hjá Marorku á árunum 2011-2013.
Eva Guðrún er með meistaragráðu í iðnaðar- og rekstrarverkfræði frá danska tækniháskólanum DTU og B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.
Bakkinn er vöruhótel samstæðu Festi, og er hlutverk þess vöruhúsaþjónusta og dreifing til rekstrarfélaga samstæðunnar, þ.e. Elko, Krónunnar og N1, sem og annarra félaga.
„Bakkinn vöruhótel ehf. er hjartað sem dælir súrefni til rekstrarfélaga Festi í formi birgða og þjónustu við félögin. Auknar kröfur um hagkvæmni, gæði og hraða í vöruhúsarekstri kalla á stöðuga þróun starfseminnar. Eva Guðrún kemur inn með reynslu og mikla sérþekkingu á þessu sviði, sem mun reynast framþróun félagsins vel og því sterka og reynslumikla teymi sem þar starfar. Við hlökkum til samstarfsins,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi.
