Síldarvinnslan: Uppgjör annars ársfjórðungs og fyrri árshelmings 2025
- Kolmunnaveiðar og -vinnsla gengu vel líkt og árið 2024. Geymum meiri aflaheimildir til haustsins.
- Gengið vel að selja loðnuafurðir.
- Frystitogarinn Blængur fiskað vel og verð há, sérstaklega á þorsk-, ýsu- og grálúðuafurðum.
- Ísfiskskipin fiskað ágætlega á fjórðungnum. Þó meira fyrir veiðunum haft, bæði á þorsk og ýsu.
- Landvinnsla í Grindavík er komin í eðlilegan gang.
- Sala bolfiskafurða gengur vel.
Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins
- Hagnaður tímabilsins á öðrum ársfjórðungi nam 5,2 m USD en hagnaður á fyrri árshelmingi nam 12,5 m USD.
- Rekstrartekjur námu 76,2 m USD á öðrum ársfjórðungi og 158,8 m USD á fyrri árshelmingi.
- EBITDA var 15,9 m USD eða 20,8% á öðrum ársfjórðungi og 38,0 m USD eða 23,9% á fyrri árshelmingi.
- Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 1.075,4 m USD og eiginfjárhlutfall var 63,9%.
Rekstur
Tekjur á öðrum ársfjórðungi námu 76,2 m USD samanborið við 60,3 m USD á öðrum ársfjórðungi 2024. Tekjur á fyrri árshelmingi voru 158,8 m USD samanborið við 141,7 m USD á fyrri árshelmingi 2024. Rekstrartekjur jukust um 15,9 m USD á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tímabil árið 2024, eða um 26,3%. Tekjuaukningin skýrist einkum af loðnuvertíð ársins og að jarðhræringar við Grindavík höfðu mun minni áhrif á rekstur en árið 2024.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á öðrum ársfjórðungi nam 15,9 m USD, en á öðrum ársfjórðungi 2024 var EBITDA 6,6 m USD. EBITDA eykst því um 9,3 m USD á milli tímabila. Á fyrri árshelmingi 2025 var EBITDA 38,0 m USD. Til samanburðar var hún 25,8 m USD á fyrri árshelmingi 2024.
Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 7,1 m USD samanborið við tap uppá 2,2 m USD á öðrum fjórðungi 2024. Á fyrri árshelmingi var hagnaður fyrir tekjuskatt 17,5 m USD samanborið við 11,7 m USD á fyrri árshelmingi 2024. Tekjuskattur var 1,9 m USD og hagnaður annars ársfjórðungs 2025 nam því 5,2 m USD samanborið við 1,9 m USD tap annars fjórðungs 2024. Hagnaður á fyrri árshelmingi var því 12,5 m USD samanborið við 9,3 m USD á fyrri árshelmingi 2024.
Efnahagur
Heildareignir námu 1.075,4 m USD í lok júní 2025. Þar af voru fastafjármunir 901,9 m USD og veltufjármunir 173,5 m USD. Í lok árs 2024 námu heildareignir 1.059,6 m USD og þar af voru fastafjármunir 853,6 m USD og veltufjármunir 206,0 m USD.
Fastafjármunir aukast um 48,3 m USD en veltufjármunir dragast saman um 32,5 m USD.
Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 686,9 m USD í lok júní 2025 og var eiginfjárhlutfall 63,9%. Samanborið nam eigið fé í lok árs 2024 alls 643,1 m USD og eiginfjárhlutfallið 60,7%.
Heildarskuldir og -skuldbindingar félagsins voru 388,5 m USD og lækkuðu um 28,0 m USD frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 239,8 m USD í lok tímabilsins og lækkuðu um 34,7 m USD frá áramótum.
Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri nam 50,3 m USD á fyrri árshelmingi 2025 en var 39,4 m USD á fyrri árshelmingi 2024. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 0,5 m USD og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 68,0 m USD. Handbært fé í lok tímabilsins nam 85,5 m USD.
Meginniðurstöður í íslenskum krónum á öðrum ársfjórðungi og fyrri árshelmingi 2025
Séu niðurstöður rekstrarreiknings ársfjórðungsins og fyrri árshelmings reiknaðar í íslenskum krónum á meðalgengi tímabilsins (1 USD=133,35 kr), námu rekstrartekjur ársfjórðungsins 10,2 milljörðum, EBITDA 2,1 milljarði og hagnaður 0,7 milljörðum. Fyrri árshelminginn námu rekstrartekjur 21,2 milljörðum, EBITDA 5,1 milljörðum og hagnaður 1,7 milljörðum. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskum krónum á gengi 30. júní 2025 (1 USD=121,33 kr), námu eignir samtals 130,5 milljörðum, skuldir 47,2 milljörðum og eigið fé 83,3 milljörðum.
Samþykkt árshlutareiknings
Árshlutauppgjör fyrri árshelmings 2025 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar þann 28. ágúst 2025. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS - International Financial Reporting Standards).
Kynningarfundur 28. ágúst 2025
Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi fimmtudaginn 28. ágúst næstkomandi klukkan 16:30. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar . Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á YouTube. Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið og reynt verður að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.
Frá forstjóra
Reksturinn á ársfjórðungnum gekk betur en árið áður. Skýrist það einkum af því að þrátt fyrir að loðnuvertíðin hafi verið mjög lítill í magni þá skiluðu þær afurðir sem við framleiddum miklum verðmætum. Landvinnsla í Grindavík gekk einnig án áfalla og hafa verð á bolfiskafurðum verið góð. Kolmunnavertíðin gekk betur en árið 2024 og er afkoma jafnframt betri.
Mikil tími og athygli fór í átök um veiðigjöld á tímabilinu, þar sem margt var sagt og mörgu haldið fram með misvísandi hætti, sérstaklega þegar mikið var gert úr meintum ofurhagnaði greinarinnar. Það liggur fyrir að arðsemi eiginfjár í sjávarútvegi er ekki ásættanleg í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Í allri umræðu um arðsemi hefur algerlega verið horft fram hjá þeirri miklu fjárbindingu og fjárfestingarþörf sem er í sjávarútvegi umfram margar aðrar greinar.
Stjórnvöld völdu að hafa varnarorð greinarinnar að engu og héldu sínu striki með stórhækkun veiðigjalda en lög þess efnis voru samþykkt á Alþingi 14. júlí síðastliðinn. Verkefni okkar sem störfum í sjávarútvegi næstu misserin er að aðlaga okkur að breyttu umhverfi. Því miður mun hækkun veiðigjalda kalla á aðgerðir hjá fyrirtækjunum, þetta kemur fram í samdrætti í fjárfestingum og hagræðingu í rekstri.
Við erum að ljúka góðri makrílvertíð og nú tekur við síldarvertíð auk þess að ljúka við kolmunnakvóta ársins. Á næstu mánuðum fáum við endanlega ráðgjöf loðnu og deilistofna fyrir næsta ár. Þrátt við ákveðna óvissu þar bindum við vonir við jákvæðar fréttir af loðnu frá sumarleiðangri Árna Friðrikssonar, en loðnurannsóknir fyrir komandi vertíð hófust í vikunni.
Góðu kvótaári er að ljúka og eru það alltaf tímamót. Á nýju kvótaári förum við yfir aflaheimildir okkar og hvernig við hámörkum virði þeirra. Markaðsaðstæður eru góðar á okkar helstu mörkuðum og þrátt fyrir margvíslegar áskoranir teljum við góða tíma fram undan.
Fjárhagsdagatal
3. ársfjórðungur 2025 – 27. nóvember 2025
Ársuppgjör 2025 – 5. mars 2026
Nánari upplýsingar
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri
Viðhengi
