Skeljungur hf.: Fyrirvörum um fjármögnun og áreiðanleikakönnun aflétt vegna sölu á P/F Magn til Sp/f Orkufelagsins. Skeljungur hyggst fjárfesta allt að 23% af heildarsöluverði P/F Magn í Sp/f Orkufelaginu.
Þann 2. september sl. var tilkynnt um að Skeljungur hefði tekið ákvörðun um að ganga til einkaviðræðna við Sp/f Orkufelagið um sölu á öllu hlutafé í dótturfélagi Skeljungs í Færeyjum, P/F Magn, á grundvelli tilboðs Sp/f Orkufelagsins.
Sp/f Orkufelagið hefur nú lýst því yfir gagnvart Skeljungi að fyrirvarar kauptilboðsins varðandi fjármögnun og áreiðanleikakönnun hafi ýmist verið uppfylltir eða að fallið sé frá þeim. Söluverð P/F Magn er óbreytt frá fyrri tilkynningu og nemur DKK 615 milljónum, eða um 12,3 milljörðum íslenskra króna. Þá hefur Skeljungur samþykkt að taka þátt í fjármögnun Sp/f Orkufélagsins, með þeim hætti að allt að 23% heildarsöluverðs í viðskiptunum verður endurfjárfest í Sp/f Orkufélaginu og með því eignast Skeljungur allt að 49% eignarhluta í Sp/f Orkufelaginu.
Samkvæmt ofangreindu eru áætluð áhrif viðskiptanna á efnahag Skeljungs þau að nettó vaxtaberandi skuldir lækka um 2,1 milljarð króna, handbært fé eykst um 7,2 milljarða og fjárfesting í Sp/f Orkufelaginu verður allt að 2,9 milljarðar króna. Eigið fé mun hækka um u.þ.b. 6 milljarða króna miðað við ofangreindar forsendur.
Framangreint er með fyrirvara um samþykki viðeigandi eftirlitsaðila og lokafrágang skjala. Áætlað er að viðskiptunum verði endanlega lokið í nóvember svo sem áður hefur verið tilkynnt um. Við lokafrágang verður nánar greint frá fjárhagslegum áhrifum og aðkomu Skeljungs að Sp/f Orkufelaginu.
Sp/f Orkufelagið er færeyskt félag með reynslumikla starfsmenn í orku- og smásölurekstri. Sp/f Orkufelagið hefur það að markmiði að verða leiðandi aðili í öllum tegundum orkurekstrar í Færeyjum. Teitur Poulsen er stjórnarformaður Sp/f Orkufelagsins.
Nánari upplýsingar veitir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs,
