Skeljungur hf.: Ákvörðun um framkvæmd endurkaupaáætlunar
Á aðalfundi Skeljungs hf., sem haldinn var 5. mars 2020, var stjórn félagsins veitt heimild til að kaupa hlutabréf í félaginu, fram að næsta aðalfundi, þó þannig að Skeljungur hf. ásamt dótturfélögum þess mega einungis eiga mest 10% hlutafjár félagsins.
Stjórn Skeljungs hf. hefur tekið ákvörðun um framkvæmd endurkaupaáætlunar á grundvelli gildandi heimildar. Áætlað er að kaupa allt að 24.820.946 eigin hluti í félaginu eða sem samsvarar 1,25% af útgefnu hlutafé, þó þannig að fjárhæð endurkaupanna verði aldrei meiri en 250.000.000 kr. Markmið áætlunarinnar er að lækka útgefið hlutafé félagsins.
Kaupin verða framkvæmd í áföngum, þó þannig að kaup hvers dags verða að hámarki 3.585.505 hlutir sem jafngildir 25% af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf félagsins í Kauphöll Íslands í febrúar 2020. Endurgjald fyrir hvern hlut skal að hámarki vera hæsta verð í síðustu óháðu viðskiptum eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboð í viðskiptakerfi Nasdaq á Íslandi, hvort sem er hærra.
Gert er ráð fyrir að endurkaup samkvæmt áætluninni hefjist 19. mars 2020 og mun áætlunin vera í gildi fram að aðalfundi félagsins 2021, nema skilyrði um hámarkskaup verði uppfyllt fyrir þann tíma.
Skeljungur á nú 166.356.181 eigin hluti, eða sem nemur 7,7% af útgefnu hlutafé í félaginu. Á aðalfundi félagsins 5. mars 2020 var samþykkt að lækka hlutafé félagsins úr kr. 2.152.031.847 að nafnvirði í kr. 1.985.675.666 að nafnverði, með þeim hætti að hlutir félagsins að nafnverði kr. 166.356.181 yrðu ógiltir. Sú lækkun hefur ekki enn verið skráð í fyrirtækjaskrá RSK. Félagið vonar að lækkunin verði skráð á næstu dögum hjá RSK. Tilkynnt verður þegar lækkunin hefur verið skráð.
Endurkaupaáætlun verður framkvæmd af Arion banka hf. sem tekur allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna, óháð félaginu. Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar verður í samræmi við lög um hlutafélög nr. 2/1995 og viðauka við reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005. Viðskipti með eigin hluti í samræmi við endurkaupaáætlun verða tilkynnt eigi síðar en við lok sjöunda viðskiptadags eftir að viðskiptin fara fram.
Nánari upplýsingar veitir Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, .
Skeljungur er orkufyrirtæki sem selur vörur og þjónustu á Íslandi, í Færeyjum og á Norður-Atlantshafinu. Meginstarfsemi félagsins er innflutningur, birgðahald, sala og dreifing á eldsneyti og eldsneytistengdum vörum og smásala. Félagið starfrækir 76 eldsneytisstöðvar og 6 birgðastöðvar á Íslandi og í Færeyjum. Auk þess selur félagið áburð og efnavörur á Íslandi og rekur verslanir og þjónustar og selur olíu til húshitunar í Færeyjum. Viðskiptavinir Skeljungs spanna frá einstaklingum til fyrirtækja, í sjávarútvegi, landbúnaði, flutningum, flugi og til verktaka. Starfsemin er rekin undir merkjunum Skeljungur, Orkan, Kvikk og Magn. Meginmarkmið Skeljungs er að þjóna orkuþörf einstaklinga og fyrirtækja á hagkvæman og öruggan máta í sátt við umhverfi sitt.