Hampiðjan – sex mánaða árshlutareikningur samstæðu Hampiðjunnar 2025
Lykilstærðir
Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.
- Rekstrartekjur voru 184,8 m€ (158,2 m€).
- EBITDA af reglulegri starfsemi á ársfjórðungnum var 24,2 m€ (19,7 m€).
- EBITDA leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði vegna kaupa á Kohinoor nam 24,7 m€.
- Hagnaður af áframhaldandi starfsemi tímabilsins nam 7,0 m€ (7,7 m€).
- Heildareignir voru 539,6 m€ (509,5 m€ í lok 2024).
- Vaxtaberandi skuldir voru 212,6 m€ (178,6 m€ í lok 2024).
- Handbært fé var 31,6 m€ (41,4 m€ í lok 2024).
- Eiginfjárhlutfall var 50,0% (53,6% í lok 2024).
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar voru 184,8 m€ og hækkuðu um 16,8% frá fyrri árshelmingi fyrra árs.
EBITDA félagsins hækkaði um 23,1% á milli tímabila eða úr 19,7 m€ á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 í 24,2 m€ á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Sé EBITDA leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði í tengslum við kaup félagsins á 75,1% í indverska félaginu Kohinoor þá nemur EBITDA fyrstu sex mánaða ársins 24,7 m€ eða aukning um 25,7%.
Gengistap fyrsta árshelmings ársins nam 2,0 m€ samanborið við gengishagnað að fjárhæð 1,2 m€ á sama tímabili í fyrra. Ástæðan er einkum langtímakröfur innan samstæðunnar í USD. EUR hefur styrkst um 13,6% á fyrsta árshelmingi gagnvart USD. Einnig hefur EUR styrkst á móti öðrum gjaldmiðlum innan samstæðunnar og má þar t.d. nefna INR en EUR hefur styrkst um 12,5% á móti INR frá því að Kohinoor kom inn í samstæðuna. Einnig hefur EUR styrkst um 7,5% gagnvart CAD og 7,8% gagnvart AUD.
Hagnaður af áframhaldandi starfsemi eftir skatta nemur 7,0 m€ en var tæplega 7,7 m€ á sama tímabili í fyrra. Sé leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði vegna kaupa á Kohinoor þá nemur hagnaður árshelmingsins af áframhaldandi starfsemi í kringum 7,4 m€.
Eins og komið hefur fram í tilkynningum frá félaginu þá er félagið að vinna að endurskipulagningu á framleiðslustarfsemi sinni. Á öðrum ársfjórðungi var hafist handa við að loka stórum hluta af starfseminni í Danmörku og í Póllandi. Félagið fer því með starfsemi þessara félaga sem aflagða starfsemi í samræmi við reikningsskilareglur. Felur það í sér að allur rekstur félaganna er sýndur í sér línu í rekstrarreikningi félagsins undir liðnum aflögð starfsemi eftir skatta. Einnig þarf að leiðrétta samanburðartölur síðasta árs í samræmi við þessa flokkun. Á tímabilinu er gjaldfærður kostnaður vegna lokunar að fjárhæð 1,8 m€ en þar er einkum um að ræða einskiptiskostnað eins og uppgreiðsla á leigusamningum á húsnæði, uppsagnartími starfsmanna, niðurfærsla á birgðum sem ekki er hægt að nota annars staðar og niðurfærsla á öðrum eignum. Á sama tímabili í fyrra var hagnaður af þessari starfsemi um 0,4 m€.
Hagnaður tímabilsins nemur því 5,2 m€ en var 8,2 m€ á sama tímabili ársins 2024. Sé leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði þá nemur hagnaður tímabilsins um 5,6 m€.
Efnahagur
Heildareignir voru 539,6 m€ og hafa hækkað úr 509,5 m€ í árslok 2024.
Eigið fé nam 269,9 m€, en af þeirri upphæð eru 14,0 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.
Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok tímabilsins 50,0% af heildareignum samstæðunnar en var 53,6% í árslok 2024.
Töluverður neikvæður þýðingarmunur af eigin fé dótturfélaga var á tímabilinu. Skýrist hann af þróun gjaldmiðla sem dótturfélögin gera upp í gagnvart evrunni. Á fyrstu sex mánuðum ársins var neikvæður þýðingarmunur að fjárhæð 4,8 m€ færður í gegnum heildarafkomu félagsins. Þýðingarmunur af hlutdeild félagsins í Kohinoor vegur þar þyngst en hann var neikvæður um 2,3 m€ en EUR styrktist um 12,5% gagnvart INR frá því að félagið var tekið inn í Hampiðjuna.
Vaxtaberandi skuldir námu í lok tímabils 212,6 m€ samanborið við 178,6 m€ í árslok 2024.
Viðskiptaskuldir og aðrar skammtímaskuldir í lok tímabilsins nema 46,4 m€ en námu 46,7 m€ í árslok 2024.
Samandregni árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., .
Í dag verður haldin fjárfestakynning kl. 16:15 í höfuðstöðvum félagsins að Skarfagörðum 4. Kynningunni verður jafnframt streymt og er streymið aðgengilegt á heimasíðu félagsins,
Hjörtur Erlendsson, forstjóri:
„Rekstur Hampiðjunnar á fyrri hluta ársins hefur verið ágætur og hefur veltan aukist umtalsvert miðað við fyrra ár eða úr 158,2 m€ í 184,8 m€ eða um 16,8%.
Þar munar mest um tilkomu indverska félagsins Kohinoor sem kom inn í reikningsskilin frá byrjun febrúar og norska félagið Fiizk Protection sem kom inn í byrjun september 2024. Ef bæði þessi félög eru tekin úr samanburðinum þá var söluaukning þeirra félaga sem voru fyrir í samstæðunni um 2,4% á fyrri hluta þessa árs.
Það er jákvætt því ýmis neikvæð áhrif vegna innrásarstríðsins í Úkraínu hafa haft áhrif á veiðarfæramarkaði víða um heim. Sérstaklega í Bandaríkjunum vegna lágs fiskverðs sem kemur til vegna alaskaufsa sem Rússar veiða og finnur sér leið inn á Bandaríkjamarkað gegnum Kína en þó eru sölutölur okkar í Bandaríkjunum að vaxa á ný eftir daufa sölumánuði í byrjun ársins. Annar markaður sem hefur orðið fyrir miklum áhrifum stríðsins er N-Noregur en þar hefur verið þrengt mikið að rússneskum útgerðarfélögum með viðskiptaþvingunum. Rússnesku skipin hafa landað miklu af sínum afla úr þorskstofninum í Barentshafi í Noregi og á móti sótt sín aðföng og veiðarfæri þar. Þessi afli ratar að mestu til landa innan Evrópusambandsins og því hefur EU verið fram til þessa verið tregt til að setja hömlur á þessa matvælaframleiðslu. Það má einnig nefna kvótaniðurskurð á þessum sameiginlega stofni Norðmanna og Rússa um 32% á þessu ári í kjölfar mikils kvótaniðurskurðar undanfarin ár.
EBITDA á fyrra helmingi ársins var 24,2 m€ samanborið við 19,7 m€ á síðasta ári. Hlutfallið 2024 var 12,4% en er í ár 13,1%. Þessar tölur eru þó ekki fyllilega sambærilegar því á fyrri hluta þessa árs kemur inn einskiptiskostnaður vegna kaupanna á Kohinoor sem nemur um 0,5 m€. Aðlöguð EBITDA er því 24,7 m€ sem samsvarar 13,4%.
Grunnreksturinn er því góður með aukinni veltu samhliða hækkandi EBITDA hlutfalli en síðan koma liðir sem hafa töluverð áhrif á hagnaðinn. Þar eru þrír liðir sem hafa töluverð áhrif á niðurstöðuna en það eru minnkandi vaxtatekjur, gengistap sem kemur aðallega til vegna veikingar dollars og síðan liður sem tiltekur aflagða starfsemi.
Eftir hlutafjáraukninguna sumarið 2023 var um helmingur aukningarinnar nýttur til að greiða niður skuldir vegna kaupanna á Mørenot í Noregi og hinn helmingurinn settur inn á reikning í íslenskum krónum. Sá hluti var ætlaður til að byggja frekar upp starfsemina í Litháen og flytja framleiðslueiningar Mørenot þangað ásamt því að auka framleiðslugetuna í Litháen til að sinna öðrum þörfum félagsins fyrir veiðarfæraefnum. Tvennt kom til að þessi áætlun breyttist því í byrjun árs 2024 eygðum við möguleika á að eignast meirihluta í indverska félaginu Kohinoor og sá möguleiki ásamt áframhaldandi miklum launahækkunum í Litháen, hækkandi byggingarkostnaði ásamt þrengri vinnumarkaði varð til að framkvæmdir þar voru settar í bið meðan skoðað var hvort grundvöllur væri fyrir kaupum á Kohinoor á Indlandi. Samningar tókust um kaupin á Kohinoor og var gengið frá greiðslu fyrir 75,1% hlut nú í mars. Fjármunirnir sem stóðu á íslenska reikningnum á góðum vöxtum voru nýttir til að greiða að hluta fyrir félagið í stað fyrirhugaðrar uppbyggingar í Litháen. Því komu góðar vaxtatekjur á móti vaxtagjöldum seinni hluta ársins 2023, allt árið 2024 og nú fyrstu mánuði 2025. Þær vaxtatekjur eru því búnar en á móti kemur rekstur Kohinoor í samstæðuna frá sama tíma. Fjáreignatekjur fyrri hluta 2024 námu 1,9 m€ en í ár tæpum 0,6 m€. Fjármagnsgjöld hækka aðeins á milli ára og fara úr tæpum 6,5 m€ í rúmar 6,7 m€.
Annar fjármagnsliður sem hefur mikil áhrif á afkomuna er gengismismunur sem skapast aðallega vegna veikingar dollars gagnvart evru og í minna mæli gegn öðrum gjaldmiðlum.
Félagið á eignir í USD, einkum lán innan félaga samstæðunnar en einnig kröfur á viðskiptavini. Á fyrstu 6 mánuðum ársins þá hefur EUR styrkst um 13,6% á móti USD. Þetta hefur leitt til þess að gengistap hefur myndast innan samstæðunnar. Félagið hefur náð að verja sig að hluta gegn þessum breytingum og urðu þær varnir virkar á öðrum fjórðungi ársins. Gengistap á fyrri hluta ársins nam tæpum 2,0 m€ en á sama tíma í fyrra var gengishagnaður tæplega 1,2 m€. Þarna kemur því fram sveifla í gengismun um rúmar 3,1 m€ milli þessara sambærilegu tímabila.
Þriðji liðurinn sem hefur mikil áhrif eru reiknuð áhrif aflagðrar starfsemi. Þessi liður hefur ekki sést í reikningum Hampiðjunnar áður en samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum skal sérstaklega gera grein fyrir aflagðri starfsemi.
Sú starfsemi sem verið er að leggja af er sölufyrirtækið Mørenot Denmark og framleiðslufyrirtækið Poldan í Póllandi. Mørenot Denmark hefur að mestu sinnt sölustarfsemi fyrir fiskeldiskvíar framleiddar í Poldan. Lokun Mørenot Denmark er frágengin með uppsögnum 10 starfsmanna og þar eru nú eftir tveir sölustjórar sem tilheyra Mørenot Aquaculture í Noregi. Á móti voru einungis ráðnir 3 starfsmenn á lager í Søvik í Noregi. Lokun Poldan gengur eftir áætlun og verður síðasti starfsdagur þar í lok þessarar viku. Þar fækkar starfsmönnum um 45.
Þessar breytingar draga ekki neitt úr sölu en auka hana frekar því salan fer í gegnum Mørenot Aquaculture í Noregi í staðinn og það sem framleitt hefur verið í Poldan og selt gegnum Mørenot Denmark flyst að hluta til Hampidjan Baltic í Litháen og Kohinoor á Indlandi en þar er framleiðslukostnaður bara brot af því sem er í Póllandi.
Í þessum lið er tekinn saman kostnaður sem fellur til vegna lokunnar á starfseminni s.s. uppgreiðsla á leigusamningum, greiða þarf uppsagnartíma starfsmanna, niðurfærsla birgða og annarra eigna. Beinn einskiptiskostnaður af því að leggja niður starfsemina í Danmörku nemur um 1,4 m€. Heildargjaldfærsla á fyrri hluta ársins vegna aflagðrar starfsemi nemur um 1,8 m€ en í fyrra var hagnaður af starfseminni að fjárhæð um 0,4 m€.
Uppgjör vegna lokunar Poldan liggur ekki fyrir og það kemur fram á síðari hluta ársins. Hvernig það uppgjör kemur út er óvíst því ólíkt Danmörku, þar sem starfsemin var öll í leiguhúsnæði og lítið um tækjabúnað, þá eru eignir í Poldan sem samanstanda af framleiðslutækjum og góðri 3.200 m² verksmiðjubyggingu ásamt 760 m² vöruhúsi og 9.425 m² landrými. Á móti kostnaði sem reiknast við lokunina þá þarf að meta virði eignanna sem eru væntanlega yfir bókfærðu verði en það mat liggur ekki fyrir. Fyrirhugað er að selja þessa eign á næstu mánuðum.
Hagnaður á öðrum ársfjórðungi ársins kemur því út sem 2,3 m€ samanborið við 5,4 m€ síðasta ár og þar munar mest um fjármagnsliði sem eru 4,8 m€ hærri til gjalda en á síðasta ári. Þar af er breyting á gengismun 3,1 m€.
Hvað varðar söluna á öðrum ársfjórðungi þá dró úr sölu veiðarfæra í Bandaríkjunum, Noregi og á Írlandi en á móti kom aukin sala á Grænlandi, Íslandi og í Danmörku. Í heildina var veiðarfærasalan eilítið minni en á öðrum fjórðungi 2024.
Sala til fiskeldis hefur hins vegar verið töluvert betri en á sama tímabili síðasta ár og verkefnastaðan er afar góð með bókuðum verkefnum fram yfir áramótin. Fyrstu áhrif af kaupunum á Kohinoor koma einmitt fram í fiskeldissölunum því nú er hægt að bjóða fiskeldisnætur úr stífu polyethylen en vinna við slík fiskeldisnet er afar vinnufrek og framleiðsla á þeim í Evrópu er ekki samkeppnisfær vegna hærri launakostnaðar. Góð sala hefur því verið í slíkum fiskeldiskvíum til Noregs, Skotlands og Íslands á undanförnum mánuðum.
Ákaft hefur verið unnið að vöruþróun í fiskeldisbúnaði hjá Mørenot Aquaculture og Fiizk Protection frá því að Hampiðjan eignaðist fyrirtækin og helstu vöruþróunarverkefnin kynnt á fiskeldissýningunni AquaNor í Þrándheimi.
Þar ber helst að nefna hálflokaða kví með sjódælubúnaði sem sækir sjó niður á 25-30 m dýpi en með þessu tvennu, lokun á hliðum kvíarinnar og sjó sem er sóttur langt niður og blandaður súrefni er hægt að verjast betur laxalús, eitruðum þörungum og marglyttum og samhliða því bæta vaxtarskilyrði laxins. Einnig var kynnt niðursökkvanleg kví sem hægt er að hafa 20-25 metra undir sjávaryfirborðinu en á því dýpi er jafnari straumur og jafnari sjávarhiti ásamt því að laxalús og marglyttur eru ekki á þessu dýpi. Möguleiki er að nota niðursökkvanlegar kvíar í Noregi þar sem firðir eru djúpir en slíkar aðstæður eru ekki víða á Íslandi, Færeyjum og Skotlandi. Það vöruþróunarverkefni sem vakti mesta athygli er búnaður sem settur er undir fiskeldiskvíar til að fanga úrgang og óétið fóðurkorn og dæla upp á yfirborðið í flokkunarbúnað sem skilur þetta tvennt að.
Mikil aðsókn var á bás Mørenot og þótti hönnun hans og kynning á vöruþróunarverkefnum til fyrirmyndar og var hann verðlaunaður sem besti sýningarbás sýningarinnar.
Sölur á ofurtógi til útsjávarverkefna hafa gengið vel og í undirbúningi eru nokkur stærri verkefni í sverum ofurtógsstroffum sem framleiddar eru í Hampidjan Baltic og álagsprófaðar í nýja 2.000 tonna og 104 m langa slitbekknum sem settur var upp þar í sumar.
Í sumar var gengið frá kaupum á kaðlafléttifyrirtækinu International Rope Braid í Ástralíu og kemur rekstur þess inn í samstæðuna frá byrjun ágúst en velta fyrirtækisins á síðasta ári var um 1,8 m€.
Í Álasundi í Noregi var lokið við að byggja stækkun skrifstofuaðstöðu Mørenot Fishery og eru nú allir starfsmenn félagsins í Álasundi sameinaðir á einum stað en fyrir utan þá staðsetningu þá er félagið með starfsstöðvar í Austevoll, Søvik, Skjervøy og Tromsø.
Á Indlandi er unnið að hönnun 28.000 m² netaverkstæðis fyrir fiskeldiskvíar og ættu teikningar og útboðsgögn að vera tilbúin á næstu vikum og búist er við að byggingin verði tilbúin til notkunar á fyrri hluta næsta árs. Fram að þeim tíma er unnið að fiskeldiskvíaframleiðslu í Jalna þar sem unnið er á tveimur samliggjandi netaverkstæðum sem eru samtals um 12.600 m² að stærð. Þegar netaverkstæðið er fullbyggt er hægt flytja meira af fiskeldiskvíaframleiðslunni til Indlands með tilheyrandi hagræðingu vegna afkastagetu og hagkvæmari vinnulauna.
Sem fyrr er unnið ákaft að hagræðingaraðgerðum í kjölfar kaupanna á Kohinoor og nýtingu samlegðartækifæra og gengur sú vinna vel. Árangurinn er farinn að birtast í grunnrekstrartölum þessa árs og hann kemur væntanlega til með að aukast eftir því sem líður á árið og síðan í meira mæli á næsta ári og mest af hagræðingunni ætti að hafa náðst á árinu 2027.“
Viðhengi
